Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vel á annan tug flokka bjóða fram til Alþingis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþýðufylkingin, Dögun, Flokkur fólksins, Flokkur heimilanna, Húmanistaflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin og Sturla Jónsson hyggja á framboð í alþingiskosningum í haust. Flestir flokkanna stefna á að vera með framboðsliðsta tilbúna í næsta mánuði.

Flokkarnir stefna að framboðum í öllum kjördæmum, fyrir utan Húmanistaflokkinn sem mun líklega bjóða fram í öðru eða báðum Reykjavíkurkjördæmum. Þá ætlar Sturla Jónsson að bjóða sig fram, en hvort hann geri það í eigin nafni eða með öðrum flokki liggur ekki fyrir, né í hvaða kjördæmi hann ætli fram í. Þá stefna allir ofangreindir flokkar á að vera með uppstillta lista.

Hjá Alþýðufylkingunni er búist við að listar flokksins verði tilbúnir í september og Flokkur fólksins ætlar að vera með sína lista klára fyrir 10. september. Ekki hefur verið ákveðið hvenær framboðslistar Flokks heimilanna liggja fyrir, en flokkurinn fer aðeins fram ef hann nær að setja saman lista í öllum kjördæmum. Húmanistaflokkurinn stefnir á að kynna sinn lista innan nokkurra vikna, og Íslenska þjóðfylkingin áætlar að listar flokksins verði allir tilbúnir um miðjan sepember.

Útlit er fyrir að vel á annan tug flokka bjóði fram til alþingiskosninga í haust, en auk þeirra sex sem hér eru taldir upp eru Björt framtíð, Dögun, Píratar, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Vinstri græn. 15 flokkar voru í framboði í síðustu alþingiskosningum.

Atli Þór Ægisson
Fréttastofa RÚV