Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Veittist að Birnu í rauða Kia Rio-bílnum

Héraðsdómur Reykjavíkur 2. mars 2017
 Mynd: RÚV
Thomas Møller Olsen, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi vegna máls Birnu Brjánsdóttur, er ákærður fyrir að hafa veist að henni í rauðum Kia Rio-bíl nálægt flotkvínni í Hafnarfjarðarhöfn laugardaginn 14. janúar. Hann er sagður hafa slegið hana ítrekað í andlitið og höfuðið, tekið hana kverkataki og hert kröftuglega að hálsi Birnu. Foreldrar Birnu krefja Olsen um 21 milljón í miskabætur.

Þetta kemur fram í ákæru héraðssaksóknara sem birt var í dag. Hún var gefin út á fimmtudag í síðustu viku þegar Olsen var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. Olsen er í ákærunni sagður hafa varpað Birnu í sjó eða vatn með þeim afleiðingum að hún drukknaði en ekki kemur fram hvar sá staður er.  

Lík Birnu fannst viku seinna í fjörunni rétt vestan við Selvogsvita í Selvogi í Ölfushreppi.  

Í ákærunni kemur fram að Birna hafi nefbrotnað og hlotið marga höggáverka í andliti og á höfði. Olsen er einnig ákærður fyrir smygl á 23,4 kílóum af kannabisefnum sem lagt var hald á um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq þegar skipið sneri aftur til hafnar í tengslum við  rannsókn lögreglu á hvarfi Birnu.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á morgun og þá tekur Olsen væntanlega formlega afstöðu til sakarefna. Hann hefur við yfirheyrslur neitað sök í máli Birnu en játað að hafa ætlað að smygla kannaibisefnunum frá Danmörku til Grænlands.

Í ákærunni gera foreldrar Birnu hvort sína miskabótakröfuna upp á 10,5 milljónir eða samtals 21 milljón. Þá krefst faðir Birnu að Olsen verði gert að greiða útfararkostnað.  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV