Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Veitingastaðir hætta rekstri í kjölfar samkomubanns

24.03.2020 - 19:37
Mynd: RÚV / RÚV
Fyrirtækjum, verslunum og veitingastöðum var mörgum lokað í dag vegna herts samkomubanns. Stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar segir ljóst að einhverjir veitingastaðir verði ekki opnaðir að nýju og hætti rekstri.

Hert samkomubann tók gildi á miðnætti. Ekki mega fleiri en tuttugu koma saman og öll starfsemi sem krefst nálægðar innan tveggja metra er bönnuð. Fjölmörgum verslunum var lokað í dag og búist er við að fleirum verði lokað í vikunni. Í matvöruverslunum verður áfram heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu, að því gefnu að hægt sé að halda að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð milli fólks. 

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir samkomubannið hafa mikil áhrif á aðrar verslanir en matvöruverslanir. „Það er almennt séð algjört fall í eftirspurn svo nemur tugum prósenta. Það er það sem menn eru að horfast í augu við núna og þessa dagana, hvernig við bregðumst við. Mér segir svo hugur um að einhver hluti af starfseminni muni hreinlega loka,“ segir Andrés.

Veitingastaðir hafa flestir skellt í lás eða stóraukið heimsendingu. Margir þeirra koma til með að berjast í bökkum næstu mánuðina, að mati Jakobs Einars Jakobssonar, eiganda Jómfrúarinnar og stjórnarmanns í Samtökum ferðaþjónustunnar.

„Það er ekki stætt á því að vera með veitingahús opið þegar ekki mega koma fleiri saman en tuttugu,“ segir Jakob. „Það er náttúrulega ekkert launungamál að það hefur ekkert vantað veitingastaði í Reykjavík undanfarin ár þannig að ég held að þetta verði mjög erfitt til skamms tíma og til lengri tíma held ég að einhverjir muni án efa heltast úr lestinni,“ segir hann.

Lögregla hefur ekki reglulegt eftirlit með því hvort verslanir og fyrirtæki fari að reglum samkomubannsins en brot gegn því varðar sektum og allt að þriggja mánaða fangelsi.