Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Veita framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4

26.10.2016 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur ákveðið að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Ekki verða gerðar breytingar á þeirri leið sem farin verður með línurnar, en Landvernd kærði framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórnin gaf út í vor og vildi að leiðinni yrði breytt og að hluti línunnar yrði lagður sem jarðstrengur.

Landsnet lagði inn nýja umsókn um framkvæmdaleyfi eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði fellt fyrra framkvæmdaleyfið úr gildi. Ástæðan fyrir því var meðal annars sú að sveitarfélagið sinnti rannsóknarskyldu sinni ekki nægjanlega vel og rökstuddi ekki afstöðu sína til mats Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sem stofnunin sagði að yrðu verulega neikvæð. Þá hefði sveitarfélagið þurft að rökstyðja hvers vegna engar athugasemdir hafi verið gerðar við annmarka á áliti Skipulagsstofnunar, þar sem ekki var vikið að framlögðum kosti Landsnets um jarðstreng.

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Á hluta línuleiðarinnar er stutt í að næstu skref verði að reisa möstur.

Mun ítarlegri rökstuðningur

Rökstuðningurinn sem fylgir nýrri bókun skipulagsnefndar Skútustaðahrepps, sem sveitarstjórn samþykkti, er mun ítarlegri. Þar segir að nefndin hafi talið að jarðstrengur hafi ekki verið raunverulegur kostur framkvæmdarinnar. Sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi vegna háspennulína í lofti, sem samræmist skipulagsáætlunum sem hafi farið í umhverfismat. 

Þá er einnig vísað í raforkulög, þar sem segir að sveitarstjórnum beri að tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar, eins og Kröflulína er. Því verði skipulagsnefnd að líta til markmiða með lögunum við veitingu þessa framkvæmdaleyfis.

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Farið verður yfir Leirhnjúkshraun með línuna.

Fengu gögn um jarðstrengi

Þrátt fyrir þetta óskaði skipulagsnefnd eftir gögnum frá Landsneti um athuganir á jarðstrengjum. Í þeim er áhrifum jarðstrengja lýst og þau talin talsvert neikvæð á landslag og ásýnd jarðmyndana, svo sem hrauns. Þannig séu þau meiri heldur en af háspennulínu, en þó mjög misjöfn þar sem sjónrænu áhrifin séu meiri af loftlínu en jarðrask meira af jarðstreng. Skipulagsnefnd tekur hins vegar undir þá afstöðu Skipulagsstofnunar að umhverfisáhrifin verði mikil og neikvæð í Leirhnjúkshrauni. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdir á Bakka eru vel á veg komnar.

Verulegir hagsmunir í húfi

Í nýjum náttúruverndarlögum er fjallað um verndun eldhrauns og að ekki megi raska því nema brýna nauðsyn beri til. Í umsögn skipulagsnefndar segir að við skipulagningu framkvæmdarinnar hafi markmiðið verið að forðast rask á hrauni, og sú vinna hafi aðeins leitt fram það rask sem brýn nauðsyn beri til í ljósi markmiða framkvæmdarinnar. 

Í niðurlagi álits nefndarinnar segir að framkvæmdin sé í beinum tengslum við uppbyggingu á Bakka og hafi jafnframt þýðingu við að bæta öryggi í afhendingu á raforku á landsvísu. Verulegir fjárhagslegir og samfélagslegir hagmunir mæli með því að af framkvæmdinni verði og að ekki verði frekari ófyrirséðar tafir á henni.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV