Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Veikara gengi auðveldi sölu á Íslandsferðum

11.06.2019 - 10:07
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Hóteleigandi í Breiðdal segir sumarið lofa góðu og þrátt fyrir fall WOW air sé ekki tilefni til svartsýni í ferðaþjónustu á Austurlandi til lengri tíma. Veiking á gengi krónunnar sé þegar farin að auðvelda heildsölu á ferðum til Íslands fram í tímann.

Í Staðarborg í Breiðdal er rekið 32 herbergja hótel í gömlum heimavistarskóla. Þangað er væntanlegur 50 manna hópur í gistingu og mat og Arnór Stefánsson, hótelstjóri er farinn að kynda undir pottunum. Þó að Breiðdalur sé langt frá Keflavíkurflugvelli finnast áhrif af falli WOW Air. „Ég sé núna breytingu á þjóðerninu. Ég var að sjá fólk hérna frá löndum sem maður hafði aldrei séð áður eins og frá Suður-Ameríku, Karabíska hafinu, Mið-Ameríku. Mexíkó og hluta Bandaríkjanna. Þetta var í gegnum WOW air mest allt, held ég,“ segir Arnór.

Þrátt fyrir þetta sér hann ekki fram á fækkun núna. Hún hafi verið í fyrra, þegar færri fóru út á land og gestum fækkaði um fimmtung. Það sé að ganga til baka og í apríl og maí hafi verið 10 prósenta aukning. „Ég held jafnvel að þetta verði betra sumar, hjá mér alla vega. En svo eru aðrir sem eru mjög svartsýnir og eru ekki sáttir við það sem er að koma í sumar. Það er færra af þessum ódýru túristum sem eru að leita að ódýrustu gistingunni og ég held að það eigi eftir að koma svolítið niður á þessum sem eru með heimagistingu og eru með RBNB.“

Hóteleigendur á Austurlandi hafa misjafna sögu að segja. Vorið hafi verið gott en það eigi eftir að koma í ljós hvernig ferðaskrifstofum gangi í sumar að fylla í frátekin herbergi fyrir hópa. Sumarið er annatími og harkið er meira á veturna og þar er mikil óvissa. „Kínverjarnir voru að koma hérna á veturna, fólk sem var kannski í háskóla í Bandaríkjunum eða Evrópu um jól og áramótin. Þetta var allt eða mest allt að koma í gegnum WOW air. Þar eigum við eftir að sjá hvað gerist í vetur,“ segir Arnór.

Þótt ISAVIA spái næstum 17% fækkun ferðamanna sem koma til að ferðast á Íslandi frá því í fyrra má líka horfa lengra aftur. Spáin gerir nú ráð fyrir að ferðamenn í ár verði 9% fleiri en þeir voru árið 2016 sem einu sinni þótti gott í ferðaþjónustu. Arnór telur ákveðin jákvæð teikn á lofti líka. „Á annan veg þá er krónan að hjálpa okkur núna fyrir ferðaheildsalana erlendis upp á að selja í þessar hópferðir á næstu árum. Þá er ég að tala um 2020 og 2021 og við erum að vona að það skili sér,“ segir Arnór Stefánsson, hótelstjóri á Staðarborg í Breiðdal.  

Horfa á fréttatíma

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV