Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Veiðiþjófur drepinn af fíl og étinn af ljónum

08.04.2019 - 03:04
epa07196539 A lioness is seen at the Monarto Zoo in Monarto, Australia, 29 November 2018. The Zoo's African lion pride has grown by three after the arrival of males Kashka, Kubwa and Kito from Melbourne Zoo.  EPA-EFE/DAVID MARIUZ  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Maður sem talinn er hafa verið við ólöglegar veiðar á nashyrningum í Kruger-þjóðgarðinum í Suður-Afríku var að líkindum drepinn af fíl og étinn af ljónum í vikunni sem leið. Vitorðsmenn veiðiþjófsins sögðu fjölskyldu hans frá því að fíll hefði banað honum á þriðjudaginn var. Ættingjarnir höfðu þá samband við þjóðgarðsverði, sem þegar hófu leit. Hún reyndist nokkuð tafsöm, en að lokum fundu leitarmenn höfuðkúpu af manni og karlmannsbuxur.

Yfirþjóðgarðsvörður Kruger-garðsins vottaði ættingjum veiðiþjófsins samúð sína. Í frétt BBC er haft eftir honum að það sé afar varasamt að fara um þjóðgarðinn fótgangandi og í leyfisleysi. „Hann býr yfir mörgum hættum eins og þetta atvik sannar.“

Veiðiþjófnaður er viðvarandi vandamál í Kruger-þjóðarðinum og fleiri afrískum þjóðgörðum. Mikil eftirspurn er eftir nashyrningshornum, fílabeini, ljónatönnum og fleiri líkamspörtum stórra skepna í útrýmingarhættu, sem fjölmargir trúa enn að örvi kynhvötina og auki kyngetuna. Er sú hégilja hvað útbreiddust í austurhluta Asíu en þó langt í frá einskorðuð við þann heimshluta.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV