Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Veiðimönnum bent á sögulegan fjölda heiðagæsa

20.08.2018 - 11:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heiðagæsastofninn er í sögulegu hámarki og biður Umhverfisstofnun skotveiðimenn að hafa það í huga á gæsaveiðitímabilinu sem hefst í dag, ef valið stendur á milli grágæsar og heiðagæsar. Heiðagæsastofninn er um fimmfallt stærri en grágæsastofninn. Stangveiði hefur ekki staðið undir væntingum á Norður- og Austurlandi í sumar.

Ein grágæs á hverjar fimm heiðagæsir

Heiðagæsastofninn er nú í sögulegu hámarki og telur yfir hálfa milljón fugla. Heiðagæsir eru aðeins minni en grágæsir, og með styttri háls og brúnar að lit. Mun minna er veitt af heiðagæs en grágæs hérlendis þó að stofninn sé um fimmfalt stærri. Gæsir eru grasbítar og sækja nokkuð í ræktarland á vorin. Fyrir tveimur árum ákváðu stjórnvöld að vinna að aðgerðaáætlun vegna ágangs gæsa og álfta í akra og tún bænda, meðal annars með greiðslum eins konar skaðabóta. 

Grágæsin mun vinsælli fugl

Gæsaveiðitímabilið hófst í dag og stendur til 15. mars. Umhverfisstofnun tekur sérstaklega fram í tilkynningu að heiðagæsastofninn sé orðinn svo stór að út frá sjálfbærni auðlinda megi skotveiðimenn hafa það í huga, ef valið stendur milli þess að skjóta heiðagæs eða grágæs, eins og það er orðað. 
Samkvæmt veiðitölum Umhverfisstofnunar 2016 voru 45.000 grágæsir veiddar 2016, sem er um þriðjungur stofnsins, en einungis 19.000 heiðagæsir. Um 11.000 manns eru með veiðikort og voru margir á síðustu metrunum að endurnýja kortin sín fyrir helgina. 

Stangveiði ekki staðið undir væntingum

En þó að heiðagæsin sé á sögulega góðu róli er ekki sömu sögu að segja af fiski. Stangveiði hefur gengið upp og ofan í sumar, þó að veiði á Suður og Vesturlandi- hafi gengið vel fram í júlí. Í ágúst var vatnsleysi farið að gera vart við sig og samkvæmt Guðna Guðbjartssyni, sviðsstjóra ferskvatnslífríkis hjá Hafró, hefur veiði á Norður- og Austurlandi ekki staðið undir væntingum. Það skýrist að mestu af smæð hrygningarstofnsins 2012. Samkvæmt seiðamælingum sem nú standa yfir má búast við betri afla á Norðurlandi á næstu árum. Bleikjuveiði hefur dregist mikið saman um allt land.