
Veiðigjöld minni útgerða verða lækkuð
Lilja Rafney segir ætlunina að afkomutengja veiðigjöldin. Minni útgerðirnar ráði ekki við þá miklu hækkun veiðigjaldsins sem tók gildi í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs í september í fyrra; hækkun, sem hafi numið allt að tvö til þrjú hundruð prósentum.
Núgildandi lög um veiðigjöld gilda út fiskveiðiárið og er kveðið á um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að breyta þeim þannig að gjöldin verði afkomutengd. Kristján Þór segir von á frumvarpi að nýjum lögum um álagningu veiðigjalda. Það frumvarp, segir Kistján, „mun taka mið af þeim áherslum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett í stjórnarsáttmála og miða að því að veiðigjöld standi undir kostnaði ríkisins af fiskveiðistjórnuninni annars vegar og hins vegar ákveðinni hlutdeild af arði af auðlindinni,“ segir ráðherra í frétt Morgunblaðsins.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fagna þessum áformum.