Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Veiðigjald henti betur en uppboðsleið

23.07.2016 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veiðigjöld henta betur til að tryggja afnot af fiskveiðiauðlindinni en uppboðsleið, að mati Jens Garðars Helgasonar, formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, þrátt fyrir fullyrðingar um að uppboð, sem nú er reynt í Færeyjum, tryggi þeim margfalt meiri arð en Íslendingum. Þorkell Helgason stærðfræðingur segir að fyrirkomulagið í Færeyjum byggi á skýrslu sem samin var fyrir stjórnvöld fyrir sex árum en lítið sem ekkert var unnið með.

Færeyingar hófu fyrir tæpum tveimur vikum að bjóða upp fiskveiðikvóta sem veiddir verða í ár í lögsögu Færeyja. Uppboðið er tilraun en 2018 rennur þeirra kvótakerfi út og nýtt verður að taka við.

Þorkell Helgason stærðfræðingur segir að Færeyingar hafi fengið mjög gott verð á þeim uppboðum sem haldin hafa verið sem tryggi þeim margfalt meiri arð af auðlindinni en Íslendingum. „Fyrirkomulagið er eins og ég og félagi minn Jón Steinsson lögðum til í skýrslu til sjávarútvegsráðherra fyrir sex árum líklega að til þess að koma í veg fyrir að menn rynnu á rassinn í þessum uppboðum að enginn þyrfti að borga meira en það lægsta tilboð sem tekið er. Og litu Færeyingar eitthvað til skýrslu ykkar Jóns? Þeir hafa allavega ekki talað við mig og Jón líklega ekki heldur en ég þykist vita að þeir hafi skoðað þessa skýrslu eins og allar aðrar opinberar skýrslur sem fyrir liggja. Þeir hafa komið hingað oft og margsinnis í kynnisferðir,“ segir Þorkell. 

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að þrátt fyrir fullyrðingar Þorkells séu veiðigjöldin mun betri kostur en uppboð. „Eins og við erum með þetta Íslendingar þá er útgerðin rukkuð um veiðigjald sem að ég held að sé mun hentugri kostur til að rukka fyrir aðgang að auðlindinni heldur en uppboðsleið. Í uppboðsleiðinni þá felst mikil óvissa fyrir fyrirtækin, þetta dregur úr langtímahugsun og fjárfestingu í greininni þegar fyrirtæki þurfa að bjóða í aflaheimildirnar á hverju ári til dæmis og ég tala nú ekki um óvissuna fyrir sjómenn og landverkafólk á hverjum tíma þegar fyrirtækin þurfa að sækja og bjóða í aflann á hverju ári. Ef við horfum til Íslands og berum það saman við aðrar þjóðir þá erum við að gera mun betur heldur en aðrar þjóðir og hingað til lands eru að koma sendinefndir til þess að í rauninni að læra og sjá hvernig við byggjum upp okkar sjávarútveg því það þykir til fyrirmyndar annars staðar í heiminum,“ segir Jens Garðar.