Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Veiðibændur tókust á um bann við netaveiði

27.04.2018 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Veiðifélag Árnesinga samþykkti á aðalfundi í gær að sumarið 2019 verði engin net lögð á veiðisvæði félagsins í Ölfusá og Hvítá, heldur aðeins veitt á stöng. 88 voru hlynnt banninu en 68 lögðust gegn því. Flugufréttir greina frá því að formaður veiðifélagsins telji að bannið sé ólöglegt og að einhver félagsmanna eigi eftir að reyna að fá ákvörðun aðalfundarins hnekkt.

Drífa Kristjánsdóttir frá Torfastöðum, formaður Tungufljótsdeildar félagsins, lagði tillöguna fram. Hún segir að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafi lagt áherslu á að mikilvægt sé að leyfa laxi að komast lifandi upp árnar, ekki síst stórlaxi svo hann komist á hrygningarstöðvar sínar. Þannig sé hægt að efla viðgang stofnsins.

Hún segir að nútíminn hafi haldið innreið sína í Veiðifélag Árnesinga. „Í lögum segir að stjórnir veiðifélaga skuli hafa hagsmuni allra að leiðarljósi. Með tillögu þessari er verið að ýta undir hagsmuni heildarinnar, alls vatnasvæðisins. Væntanlega verður það til þess að í framtíðinni verður verðmæti svæðisins alls miklu meira en nú er,“ segir hún.

Hún segir fylgjendur banns við netum á vatnasvæðinu hafi séð tækifæri til að fá tillöguna samþykkta nú. „Við töldum að það væri færi til þess og að hefðum afl á fundinum til að geta komið þessu í gegn.“ Landeigendur í félaginu hafi áður haft val um það hvort veitt sé á stöng eða í net á þeirra svæði.

Um 200 jarðir eiga aðild að félaginu og greiðir hver jörð eitt atkvæði á aðalfundi. Drífa segir að tekist hafi verið á á fundinum í gær. 88 voru hlynnt tillögunni en 68 voru mótfallin. Hægt er að kæra samþykkt tillögunnar til Fiskistofu en verði það ekki gert tekur hún gildi sumarið 2019.

Í Flugufréttum segir að netabændur í Ölfusá og Hvítá ætli að krefjast skaðabóta vegna bannsins. Þar er haft eftir Jörundi Gaukssyni, formanni Veiðifélags Árnesinga, að ákvörðun aðalfundarins, um að aðeins megi veiða á stöng á vatnasvæðinu, sé ólögleg. Öruggt sé að einhver félagsmanna láti hnekkja ákvörðuninni. Þá hafa Flugufréttir eftir Árna Baldurssyni hjá Lax-á að ákvörðunin sé einhver mesta friðunaraðgerð á laxi sem gerði hafi verið hérlendis og að varla hafi mátt seinna vera hvað varðar lax í Soginu þar sem aðeins veiddust 118 laxar síðasta sumar. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir