Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Veggjöldin frá 60 upp í 200 krónur

13.09.2019 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Með því að leggja á veggjöld á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 ár á að flýta framkvæmdum sem stæðu að óbreyttu fram til ársins 2070. Samkvæmt heimildum Spegilsins er rætt um að hámarksgjald verði 200 krónur og lægsta gjaldið 60 krónur fyrir hverja ferð. Enn á eftir að útfæra tillögurnar.

„Fréttin í þessum tillögum er að það virðist svo vera, eftir allan þann ágreining sem hefur verið á hinu pólitíska sviði um einhver sérstök veggjöld til að flýta og hraða uppbyggingu samgöngukerfisns, að um þær sé pólitíks sátt.“

Sagði Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgönguráðherra, í hádegisfréttum í gær. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem veggjöld eru nefnd til að flýta framkvæmdum. Jón Gunnarsson þá samgönguráðherra lét gera úttekt á mögulegum veggjöldum til að standa undir framkvæmdum á suðvesturhorninu og forveri hans í starfi Kristján Möller var líka með veggjöld á sínu borði. 

Beðið með kynningu

Nú virðist hins vegar hafa náðst þverpólitísk sátt. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynnti snemma í gærmorgun hvernig áætlað er að staðið verði að framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum. Eftir þann fund var búist við að boðað yrði til blaðamannafundar seinna um daginn og kynnt undirskrifað samkomulag sveitarfélaganna og ríkisins. Ekkert varð úr því. Eftir fund ráðherra með sveitarstjórnarmönnum kynnti hann stjórnarflokkunum þremur málið á einum fundi. Þar komu fram ýmsar athugasemdir en þó ekki þess eðlis að þingmenn væru á móti áformunum. Þingmenn vildu nánari skýringar á því hvernig þessi áform rímuðu við samgönguáætlun sem samþykkt var í febrúar. Einnig vildu þeir fá nánari skýringar á því hvernig innheimtu veggjalda yrði háttað. Þetta varð til þess að ráðherra taldi væntanlega ekki rétt að kynna fjölmiðlum málið. Nú er gert ráð fyrir að pakkinn verði formlega kynntur og undirritaður á allra næstu dögum.

Tæpir 50 milljarðar í borgarlínu 

Eins og fram kom í fréttum RÚV í gær er gert ráð fyrir að um 120 milljörðum króna verði varið til vegamála á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum eða til ársins 2033. Af þessum fari rétt tæpir 50 milljarðar króna í að leggja Borgarlínu, rúmir 52 milljarðar í lagningu stofnbrauta, rúmir 7 milljarðar í umferðastýringu og rúmir 8 milljarðar í lagningu göngu- og hjólastíga og undirgöng.

Í heildarpakkanum yrði hlutur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu 15 milljarðar og ríkisins um 50 milljarðar. Ríkið stefnir að því að selja Keldnalandið til að til að afla fjár til framkvæmdanna. Með veggjöldum á að innheimta 60 milljarða á næstu 15 árum. Í áformum sveitarfélaganna og ríkisins er ekki talað um veggjöld heldur flýti- og umferðargjöld. Eftir því sem næst verður komist er verið að tala um tiltölulega lág gjöld sem yrðu innheimt á helstu stofnbrautum með rafrænum hætti og færu bæði eftir umferðarálagi á hverjum tíma og aksturslengd. Þau yrðu hærri á háannatíma og lægri á öðrum. Þar er verið að tala um gjald sem gæti verið allt niður í 60 krónur.

Andstaða vex í Noregi

Þó að þverpólitísk sátt hafi náðst meðal sveitarfélaganna og stjórnarflokkanna er næsta víst að tekist verður á um málið þegar kemur að því að leggja fram endurnýjaða samgönguáætlun. Ýmsir hafa lýst yfir andstöðu við veggjöld. Ekki sé rétt að leggja enn einn skattinn á landsmenn. 

Norðmenn hafa innheimt veggjöld um árabil. Á síðustu árum hefur andstaða þar aukist. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum buðu fram flokkar sem sérstaklega voru stofnaðir til að draga úr innheimtu veggjalda. Þessir flokkar fengu talsvert fylgi en þess er líka að geta að Græningjar sem styðja veggjöld út frá umhverfissjónarmiðum unnu líka á.

Ýmsum finnst að stjórnvöld í Noregi hafi farið offari í innheimtunni. Gjöldin séu íþyngjandi fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar og þurfa að fara til vinnu í bíl. Í Speglinum í fyrra var fjallað um veggjöldin í Noregi. Þar var nefnt dæmi um einstakling sem greiðir hámarksgjald eða sem þarf nær daglega að greiða veggjöld. Í hans tilfelli gætu greiðslur numið um 500 þúsund krónum á ári, hálfri milljón. Í þessu tilfelli námu greiðslur vegna veggjalda nærri 10% af árslaunum þessa einstaklings. Hins vegar lækkar þetta hlutfall eftir því sem tekjur eru hærri.

Vegjöldin frá 60 upp í 200 krónur

Svo virðist sem  þau veggjöld sem til stendur að innheimta verði talsvert lægri en þetta. Þess vegna er ekki víst að t.d. verkalýðshreyfingin muni mótmæla kröftuglega. Staðan hér hér sé allt önnur en í Noregi þar sem veggjöld eru innheimt í tíma og ótíma hvar sem er. Menn geti ekki farið langt án þess að vera rukkaðir. Innheimtan hefur ekki verið útfærð en samkvæmt heimildum Spegilsins er rætt um að hámarksgjald verði 60 - 200 krónur fyrir hverja ferð.

Veigamikil rök fyrir því að hefja innheimtu veggjalda eru að með þeim sé verið að flýta framkvæmdum. Ráðist verði í vegaframkvæmdir á næstu 15 árum sem hefðu að óbreyttu tekið 50 ár eða staðið fram til ársins 2070. Myndin á eftir að skýrast þegar samgönguráðherra og sveitarfélögin telja málið tilbúið til undirskriftar og kynningar. Búist er við að það verði á allra næstu dögum.