Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Veggjöld og almenningssamgöngur

31.01.2019 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að bætt verði í drög að samgönguáætlun til 2033 að unnið verði að samningi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu almenningssamgangna og úrbætur á stofnvegum. Veggjöld eru sögð opna mikil tækifæri. Sjö af níu nefndarmönnum standa að áliti meirihlutans, þar á meðal Karl Gauti Hjaltason, þingmaður utan flokka. Hann og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, skrifa þó undir meirihlutaálitið með fyrirvara.

Karl Gauti gerir þann fyrirvara að nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um fjárhæð veggjalda og útfærslu afsláttarkjara. Hann leggur sérstaka áherslu á að gjöld sem lögð eru á bifreiðaeigendum lækki samhliða upptöku veggjalda.  Karl Gauti vill líka að fé sem renna á í væntanlegan þjóðarsjóð fari að hluta í að kosta framkvæmdir í samgönguáætlun, meðal annars við Sundabraut.

Í nefndarálitinu segir að mikil tækifæri felist í hugmyndum um veggjöld. Með þeim megi auka og flýta samgönguframkvæmdum til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Nefndarmenn sem standa að nefndarálitinu vilja að þrjár meginstofnæðar til og frá höfuðborgarsvæðinu verði fjármagnaðar með veggjöldum sem verði hætt að innheimta um leið og lán hafa verið greidd upp. Þetta eru Reykjanesbraut að Keflavíkurflugvelli, Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur. Meirihlutinn vill skoða blandaða fjármögnun á landsbyggðinni þar sem bæði verði notað fé úr samgönguáætlun og gjaldtaka. Loks er gert ráð fyrir veggjöldum í jarðgöngum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV