Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vegagerðin telur sig í fullum rétti

24.07.2019 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Már Björnsson
Ófeigsfjarðarvegur er landsvegur á þjóðvegaskrá samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Sigurður Már Óskarsson, deildarstjóri umsjónardeildar vestursvæðis hjá Vegagerðinni, segir að Vegagerðin telji sig hafa fullt forræði yfir þjóðvegum samkvæmt vegalögum.

 „Við höfum forræði yfir þjóðvegum og við erum veghaldarar og getum framselt veghald á grundvelli vegalaga,“ segir Sigurður Már. RÚV greindi frá því í gær að hluti landeigenda að Seljanesi hefði mótmælt framsali Vegagerðarinnar á afnotum af vegi um Seljanesland til einkahlutafélags í tengslum við Hvalárvirkjum. Ekki náðist í Vegagerðina í gær.

Vegurinn þjóðvegur

Í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar er gerð grein fyrir málinu. Þar segir meðal annars að Ófeigsfjarðarvegur sé þjóðvegur og hafi verið skráður landsvegur í vegaskrá Vegagerðarinnar frá árinu 2004. Þá hafi Vegagerðin verið veghaldari en sé nú búin að semja við Vesturverk um tímabundið veghald. „Vegir í tölu þjóðvega sem haldið hefur verið við af almannafé um áratugaskeið, hafa af dómstólum verið taldir tilheyra íslenska ríkinu þrátt fyrir að formleg skjalfest eignarheimild liggi ekki fyrir.“

Árneshreppur séð um veghald með styrkjum

Þá segir einnig að Vegagerðin hafi lagt Ófeigsfjarðarveg frá Strandavegi að Eyri í Ingólfsfirði. Frá Eyri hafi verið rudd slóð norður að Hvalá. Árneshreppur hefur síðan haldið slóðinni við og endurbætt hana með styrkjum frá Vegagerðinni. „Hingað til hefur ekki annað legið fyrir en að þessar vegabætur hafi verið unnar í góðu samkomulagi við landeigendur enda til þess fallnar að bæta samgöngur við þær.“

Þurfa að vera samráði við landeigendur

Samkvæmt samningum Vegagerðarinnar við Vesturverk er það í höndum þess síðarnefnda að annast alla samninga við landeigendur vegna framkvæmda á veginum, reynist þörf á því. Búið er að ítreka við Vesturverk að vera í samráði við landeigendur um breytingar og lagfæringar. Verkið þarf einnig að vinna samkvæmt reglum Vegagerðarinnar.