Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Veðurstofan yfirtekur flugveðurþjónustu í Færeyjum

26.01.2020 - 06:41
Mynd með færslu
Þórshöfn í Færeyjum. Mynd: Stig Nygaard - WikiCommons
Veðurstofa Íslands tók í vikunni við flugveðurþjónustu á flugvellinum í Vogum í Færeyjum, aðalflugvelli Færeyinga. Áður hafði Veðurstofan séð um að vara við ókyrrð og ísingu yfir Færeyjum en danska veðurstofan sá um veðurspár fyrir flugvöllinn.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Með þessum breytingum er öll veðurþjónusta fyrir flugvöllinn í Vogum komin á eina hendi. Þetta hefur jafnframt í för með sér að veðurfræðingum á morgunvakt hefur verið fjölgað úr tveimur í þrjá. Aldrei áður hafa þrír veðurfræðingar verið samtímis á vakt undir venjulegum kringumstæðum, segir í tilkynningu Veðurstofunnar, þótt það hafi gerst í eldgosum síðustu ára.

Bætir sjóveðurspár og stækkar enn spásvæði flugveðurþjónustu

Með því að taka við flugveðurþjónustunni í Vogum fær Veðurstofan aðgang að háupplausnarlíkönum af Færeyjum og hafinu umhverfis þær, sem mun gera veðurfræðingum hennar kleift að bæta sjóveðurspár á því spásvæði. Allt er þetta gert samkvæmt samkomulagi við dönsku veðurstofuna, sem greiðir þann kostnað sem til fellur vegna þessa.

Spásvæði flugveðurþjónustu Veðurstofu Íslands stækkar því enn og var þó gríðarstórt fyrir, eitt það stærsta í heiminum. Það teygir sig yfir lungann af Grænlandi, upp til Norðurpólsins og langleiðina að Skotlandi.

m.
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV