Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Veður gæti tafið talningu í Norðausturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Vont veður um komandi kosningahelgi gæti tafið talningu atkvæða í Norðausturkjördæmi fram á sunnudag. Kosið verður til Alþingis á laugardag, eftir tvo daga, en spáð er vondu veðri með snjókomu á norðanverðu landinu þann dag og um kvöldið. Yfirkjörstjórn fundar um málið í dag.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að þetta geti þýtt að tafir verði á flutningi atkvæðaseðla frá Austurlandi til Akureyrar, þar sem kjörgögn eru talin. Haft er eftir Gesti Jónssyni, formanni yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, að tíðkast hafi verið að gögnin komi með flugvél, en ef það verður ekki flogið vegna veðurs, verður að keyra með kassana til Akureyrar. Ef til þess kemur verða atkvæðin í kjördæminu ekki talin fyrr en á sunnudagsmorgun. Fundað verður um málið í dag og segir Gestur að nauðsynlegt sé að vera við öllu búinn. Mikið sé lagt upp úr því að blanda atkvæðum víða að úr kjördæminu vel saman við talningu til þess að sjá sem best hvernig landið liggur.

Þá segir í Morgunblaðinu að yfirkjörstjórnir hafi litlar áhyggjur af veðri á laugardeginum í Norðvestur- og Suðurkjördæmum. 

Sterkt vígi Framsóknarflokksins og VG

Norðausturkjördæmi hefur 10 sæti á Alþingi, þar af 1 jöfnunarsæti. Kjördæmið var sameinað úr kjördæmunum Norðurlandi eystra og Austurlandi með þeim undantekningum að Siglufjörður sem áður tilheyrði Norðurlandi vestra er í Norðausturkjördæmi en Hornafjörður sem áður var í Austurlandskjördæmi tilheyrir nú Suðurkjördæmi, er fram kemur á Kosningavef RÚV. Kjördæmið var búið til með nýrri kjördæmaskipan árið 2000. Fyrst var kosið samkvæmt nýrri kjördæmaskipan í Alþingiskosningum 2003. Í báðum þingkosningunum sem fram hafa farið eftir að nýja kjördæmaskipunin var tekin upp hafa úrslitin í Norðausturkjördæmi einkennst af meiri jöfnuði á milli flokka en tíðkast í öðrum kjördæmum, það er sterkasta vígi bæði Framsóknarflokksins og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á meðan bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa verið veikari þar en á landsvísu.

 

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV