Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Veðrið afhjúpar líka styrkleika

14.02.2020 - 10:18
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Okkur varð tíðrætt um veikleikana hér í desember, en öll þessi veður hafa líka afhjúpað styrkleikana,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún ræddi þar stuttlega um veðurofsann á landinu. 

Katrín sagði einstakt að fylgjast með viðbragðsaðilum, sem alltaf væru á vaktinni og reiðubúnir til aðstoðar. Hún sagðist jafnvel telja að orðið viðbragðsaðilar yrði orð ársins 2020. 

Katrín hvatti fólk í gær til þess að halda sig heima ef mögulegt væri og ákveðið var að fresta ríkisstjórnarfundi fram yfir hádegi í dag. Katrín sagðist hafa talið það verra ef ríkisstjórnin þyrfti að láta bjarga sér af fundi.  

Þingflokkar hafa verið á ferð og flugi í kjördæmaviku og Vinstri-græn fóru víða. „Fólk talaði um veðrið á hverjum einasta fundi,” sagði Katrín. Við værum öll komin með nóg af veðrum á þessum vetri. „Hann er búinn að vera þungur.”  

Stjórnvöld settu á laggirnar starfshóp eftir óveðrið í desember sem er að fara yfir raforkumál, fjarskipti og innviði. Hópurinn á að skila af sér í lok febrúar og Katrín segir að þá verði kynntar tillögur til úrbóta svo öryggi verði betur tryggt.  „Vonum bara að þetta gangi yfir án mikils skaða. Það er það sem maður vonar og fylgist með.“

thorunneb's picture
Þórunn Elísabet Bogadóttir
dagskrárgerðarmaður