Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vatnsnesvegur illa útleikinn eftir rigningar

22.09.2019 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd: Valgeir Örn Ragnarsson - Aðsend mynd
Vatnsnesvegur er illfær eftir rigningar síðustu daga. Vatnsnesvegur, sjötíu kílómetra malarvegur frá Hvammstanga og út fyrir Vatnsnes, hefur verið til umfjöllunar síðustu ár, sökum slæms ástands hans og umferðarslysa. Magnús Magnússon í Sveitarstjórn Húnaþings vestra, segir uppbyggingu vegarins vera forgangsverkefni.

Magnús segir að þau í sveitarstjórninni séu að vinna áfram í málinu og hafi beitt sér fyrir því, enda forgangsverkefni. Vegurinn og uppbygging hans séu ekki á samgönguáætlun næstu fimm ára. Baráttan felist helst í því að reyna að koma honum á áætlunina þegar hún verði endurskoðuð núna í haust. 

Einhugur um að vegurinn eigi að vera í forgangi

Sveitarstjórnin eigi von á þingmönnum í október í kjördæmaviku Alþingis, þá verði málið tekið upp enn á ný. Hann vænti þess að stjórnin fái aftur að fara fyrir samgöngu- og umhverfisnefnd Alþingis, líkt og í fyrra. Þá hafi þau gert alvarlegar athugasemdir við málið. „Hvar sem við getum komið þessu að erum við að gera það.“ 

Þá segir hann að sveitarstjórnarfulltrúar á Norðurlandi vestra séu á sama máli. Vegurinn sé, og eigi að vera í forgangi, og hann sé það samkvæmt samgöngu- og innviðaáætlun Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. 

Vegurinn helsta verkefnið

Greint var frá því í lok ágústmánaðar að helsta verkefni sveitarstjórnar Húnaþings vestra næstu vikur yrði að koma uppbyggingu Vatnsnesvegar á samgönguáætlun. Foreldrar kvíði því að senda börnin í skólabíl eftir holóttum veginum.

„Það var náttúrulega þurrt í sumar og þannig hélt vegurinn sér sæmilega en núna strax og byrjaði að rigna í haust þá er hann bara orðinn ófær aftur,“ sagði Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti Húnaþings vestra. „Strax og er komin bleyta og þetta mikli umferð á honum þá verður hann ekkert nema holur.“