Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vatnsból Seyðfirðinga óvarið fyrir ösku

04.02.2015 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Vatnsból Seyðfirðinga er óvarið gegn öskufalli og mögulega þyrfti að afla drykkjavatns á flöskum ef kæmi til öskufalls frá Bárðarbungu. Sama gildir um nokkra sveitabæi í Mjóafirði. Áætlun um viðbrögð við hamfaraeldgosi og öskufalli á Austurlandi er enn í smíðum hálfu ári eftir að eldgos hófst.

Viðbragðsáætlun enn í smíðum

Vinna við viðbragðsáætlunina var rædd á íbúafundum í Fjarðabyggð í gærkvöld. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, á sæti í annarri af tveimur almannavarnanefndum á Austurlandi sem vinna viðbragðsáætlunina í samstarfi við Almannavarnir. Hann segir að þó að áætlunin sé ekki tilbúin hafi vinna við hana hafist fljótlega eftir að gos hófst. Hún á að vera tilbúin eftir rúman mánuð eða 13. mars.

Lokur smíðaðar á niðurföll

 Páll segir að sveitarfélagið Fjarðabyggð hafi þegar gripið til ráðstafana vegna hættu á öskugosi. Rykgrímum og leiðbeiningum hafi til að mynda verið dreift í grunnskóla og gasgrímur keyptar fyrir þá starfsmenn sem þyrftu að starfa úti í mikilli mengun. Þá hafi sveitarfélagið látið smíða sérstakar lokur fyrir götuniðurföll svo að aska berist ekki í holræsi.

Fjölga þarf rafstöðvum

Ýmislegt sé þó ófrágengið eins og varaafl til að halda vatnsveitum gangandi í smærri byggðakjörnum. Þá þurfi að grípa til ráðstafana til að tryggja neysluvatn á sumum sveitabæjum í Mjóafirði þar sem vatnból eru opin. Þangað eru einungis samgöngur sjóleiðna stóran hluta vetrar. Hann tekur þó fram að líklega myndi öskufall fyrst og fremst valda óþægindum en ekki hamförum.

Seyðfirðingar berskjaldaðir

Vatnsból Seyðfirðinga er líka ofanjarðar að hluta en vatnið fer í gegnum hreinsivirki þar sem það er síað og geislað til að eyða örverum. Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðsfirði, á einnig sæti í almannavarnanefnd. Hann segir að Heilbrigðiseftirlit Austurlands vakti vatnsbólið og kanni hvort gasmengun og súrt regn spilli vatninu. Öskufall gæti hinsvegar sett strik í reikninginn og mögulega þyrfti að afla drykkjavatns á flöskum en það færi eftir því hvað efni væru í gosöskunni. Hann segir að menn hafi vaknað upp við það að viðbragðsáætlun hafi skort fyrir Austurland í heild.