Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vatnið öruggt til neyslu

16.01.2018 - 14:20
epa03822518 Water runs from a tap in London, Britain, 12 August 2013. News reports suggest Thames Water will look to raise its prices in 2014 to cover debts and infrastructure costs.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Mælingar á neysluvatni á höfuðborgarsvæðinu gefa ekki til kynna að neysla þess sé hættuleg heilsu fólks. Þetta er niðurstaða stjórnskipaðrar samstarfsnefndar sem fór yfir mælingar á vatnsgæðum á fundi í hádeginu. Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að mengun í neysluvatni á höfuðborgarsvæðinu sem mældist sé einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta. Af því leiddi að gæði neysluvatns hafa ekki staðist ítrustu gæðakröfur í nokkra daga.

Eins og Ólafur Guðlaugsson, sérfræðingur í sýklavörnum á Landspítala, sagði í hádegisfréttum RÚV, er ekki ástæða til að almenningur sjóði vatn til neyslu eða grípi til annarra varúðarráðstafana. Að auki er óhætt að nota vatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu. Veitur og heilbrigðiseftirlitin á höfuðborgarsvæðinu fylgjast áfram með gæðum neysluvatns og birta niðurstöður á vefsíðum sínum.

Fund samstarfsnefndarinnar skipuðu fulltrúar sóttvarnalæknis, Matvælastofnunar, heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Kjósarsvæðis, Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sýkingavarna- og sýklafræðideildar Landspítala, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, MATÍS, Veitna ohf. og Geislavarna ríkisins.