Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vatnaskil í framleiðslu norræns sjónvarpsefnis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Vatnaskil í framleiðslu norræns sjónvarpsefnis

20.04.2018 - 09:50

Höfundar

Útvarpsstjórar norrænu almannaþjónustumiðlanna fimm kynntu í gær samstarf um framleiðslu leikins efnis sem ber yfirskriftina „Nordic 12“. Samningunum er ætlað að auka bæði magn og gæði norræns leikins efnis fyrir sjónvarp og streymiþjónustu. Samningurinn tryggir íslenskum áhorfendm aðgang að tólf nýjum þáttaröðum sem verða aðgengilegar í 12 mánuði.

„Í dag sjósetjum við samstarf um framleiðslu leikins efnis sem mun efla aðgengi að góðu norrænu leiknu efni. Það á einnig að tryggja að leikið efni verði enn sem áður áberandi sérkenni fjölmiðla í almannaþjónustu á Norðurlöndum,“ sagði Maria Rørbye Rønn, útvarpsstjóri DR við þetta tilefni. 

„Leikið efni er nærtæk leið til að ná til margra norrænna notenda með innihald þar sem fjallað er um sameiginlegan menningararf og sjálfsmynd og sem getur tengt Norðurlönd þvert á tungumál og kynslóðir. Þegar við stöndum saman sem fjölmiðlar í almannaþjónustu á Norðurlöndum erum við einfaldlega öflugri og getum boðið áhorfendum upp á betri tilboð.“

Mynd með færslu
 Mynd: DR
Maria Rørbye Rønn, útvarpsstjóri DR

Vegna samningsins geta íslenskir notendur á komandi ári nálgast tólf nýjar leiknar þáttaraðir framleiddar af norrænum sjónvarpsstöðvum í almannaþjónustu en þær verða að auki aðgengilegar notendum mun lengur en áður, eða í 12 mánuði.

Í fyrstu bylgju „Nordic 12“ - samstarfsins eru tólf leiknar þáttaraðir sem verða framleiddar hjá DR, YLE, SVT, NRK eða RÚV. Norræn framleiðsla af þessu tagi hefur á síðustu árum notið hylli á alþjóðamarkaði, en sem dæmi má nefna að norrænt efni hefur hneppt sex af síðustu fimmtán EMMY-verðlaunum í flokki leikins sjónvarpsefnis.

Mynd með færslu
 Mynd: DR
Vegir Drottins frá DR voru sýndir á RÚV síðasta vetur

„Nordic 12“ er að auki ætlað að efla hlutverk norrænu ríkisfjölmiðlanna sem starfa í almannaþjónustu sem aflvaka fyrir þróun hæfileika á Norðurlöndum með því að leggja áherslu á hæfileika og nýsköpun.

Meðal norrænna þáttaraða sem RÚV hefur verið meðframleiðandi að í gegnum Nordvision eru Vegur drottins eða Herrens veje frá DR, Gullkálfar eða Mammon frá NRK og Lövander-fjölskyldan frá SVT. Meðal nýrra þátta sem væntanlegir eru til sýninga á RÚV og í spilara RÚV gegnum Nordic 12 samstarfið eru meðal annars Liberty frá DR, Hjemmebanen frá NRK, Bind Donna frá YLE og De dagar som blommorna blommar frá SVT.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Nýtt upphaf í leiknu efni hjá DR

Bloggið

Norrænt samstarf í blóma