Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vatn komið að þjóðveginum í Eldhrauni

05.08.2018 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: Björn Malmquist - RÚV
Hlaupvatn úr Skaftá er farið að renna með þjóðveginum í Eldhrauni vestan Kirkjubæjarklausturs. Vatn er komið út í hraunið milli Brests og Áningarstaðar í Eldhrauni.

Ágúst Bjartmarsson yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík segir að hingað til hafi allt gengið fyrir sig líkt og í fyrri hlaupum. Nú taki lón að myndast fyrir neðan Ángingarstað. „Vatnið síast inn í Eldhraun og kemur svo upp hér og þar. Það getur jafnvel horfið jafn skjótt og það birtist. Þá kemur það upp á nýjum stöðum í hrauninu. Vatnið rennur nú meðfram þjóðveginum líkt og venjulega þegar hleypur í Skaftá. Ég hef hvergi séð neitt óvenjulegt það sem af er. Fólk verður samt að hafa varann á og ekki fara inn í hraunið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Björn Malmquist - RÚV

Ágúst segir að fylgst sé grannt með brúnni yfir Eldvatn. Það brjóti úr veggjum nálægt henni en brúin standi. Bíða þurfi eftir að vatnið sjattni svo hægt verði að taka allt út áður en umferð verði hleypt á ný yfir hana. Það sé langt í það enn. „Það má segja að enn sé allt á sínum stað.“