Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Varpar ljósi á stærstu eldgos Íslandssögunnar

14.07.2016 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Öskjusigið sem varð í Bárðarbungu í Holuhraunsgosinu í fyrra er það fyrsta sem hægt hefur verið að mæla nákvæmlega á meðan á því stóð. Niðurstöðurnar verða birtar í nýjasta hefti hins virta vísindatímarits Science sem kemur út á morgun. Hátt í fimmtíu vísindamenn frá fjórtán háskólum í níu löndum tóku þátt í rannsókninni.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, er í forsvari fyrir hópinn.

„Öskjusig eru ekkert sérlega algeng sem betur fer, því að mjög oft fylgir þeim mjög stórt eldgos. Það eru bara sex fyrir utan þetta sem við vitum nákvæma dagsetningu á. Það eru þau sem urðu á 20. öld. Og vegna þess hvernig öskjusig er tengt þessum stóru stærstu gosum þá er mjög mikilvægt að skilja hvernig svona atburðir verða, hvað hleypir þeim af stað og hvað heldur þeim gangandi. Þessum spurningum tókst að svara nokkuð vel í þessari rannsókn,“ segir Magnús.

Hvers vegna náðist að mæla þetta hér en ekki annars staðar?

Í fyrsta lagi vegna þess að þetta er í fyrsta sinn sem þetta mikið af mælitækjum er á eldfjalli þar sem eitthvað svona gerist. Þannig að það sem gerði það að verkum að við fáum þetta góða mynd, er að þetta gerist mjög hægt. Þetta gerðist á sex mánuðum. Síðan tengist þessu rannsóknarhópur sem varð til í future work stóra verkefninu. Því verkefninu fylgdu líka auka mælitæki. Svo má ekki gleyma því að þegar stórir atburðir verða á Íslandi þá hjálpast allir að,“ segir Magnús. 

Styður gamla tilgátu
„Þessi atburðarás, öskusig í Bárðabungu og gos í Holuhrauni, varpa ljósi á stærstu eldgos Íslandssögunnar. Það er til dæmis mjög líklegt að Lakagígagosið, Skaftáreldar, þeir hafi átt uppruna sinn undir Grímsvötnum, með stóru öskjusigi þar. Þetta er ekki ný tilgáta. Haraldur Sigurðsson og fleiri settu hana fram fyrir bráðum 40 árum. Þá höfðu menn engin gögn til að byggja þetta á, bara líkur. Þannig að þetta hefur verið tilgáta. Nú erum við búin að sjá hvernig þetta getur gerst. Og það er mjög líklegt að þarna sé að leita skýringa á mörgum þeirra stærstu eldgosa sem við þekkjum í Íslandssögunni,“ segir Magnús Tumi.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV