Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Varnaraðgerðir vegna skriðufalla á Seyðisfirði

19.04.2016 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á næstu vikum verður kynnt skýrsla um varnaraðgerðir vegna skriðufalla við sunnanverðan Seyðisfjörð. Síðan 2002 hefur verið unnið að rannsóknum á skriðuhættu þar en í miklum vatnsveðrum sem gengu yfir Austurland í lok árs féllu margar litlar spýjur á svæðum bæði norðan og sunnan fjarðarins. Íbúar á hættusvæðum eru óþreyjufullir eftir upplýsingum um hvað muni gerast þar sem viðhald og endurbætur húsnæðis verður alltaf háðar því hvort að húsin verði varin eða keypt upp, segir bæjarstjórinn.

Sérfræðingar á vegum bæjaryfirvalda og Ofanflóðasjóðs vinna nú að tillögum að þeim ofanflóðavörnum sem mögulega sé hægt að nýta til varnar byggð á Seyðisfirði.  Framkvæmdin fellur að einhverju leyti á bæjarfélagið en Ofanflóðasjóður greiðir í mesta lagi 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir mannvirkja og í mesta lagi 60% af viðhaldi þeirra. Ofanflóðasjóður greiðir einnig fyrir þau hús sem þarf að kaupa upp en annar kostnaður, til að mynda vegna breytts vatnsbúskaps í kjölfar varnargarðagerðar, er á herðum sveitarfélagsins.

Verið er að vinna að endurskoðun hættumatsins fyrir Seyðisfjörð en gert er ráð fyrir því að það verði tilbúið síðar á árinu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Samfara gerð tillagnanna er unnið að nýju hættumat en ekki er ljóst hvenær það verður nákvæmlega kynnt. Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri á Seyðisfirði segir aðgerðaráætlun í byggingu varna hafa legið í dvala í um áratug. Þegar varnargarðar hafi verið kláraðir í Bjólfinum árið 2012 hafi verið kominn tími á að huga að næsta áfanga í gerð ofanflóðavarna. Hann segir skort á svæðum þar sem megi byggja vissulega hamla uppbyggingu á Seyðisfirði þar mikil eftirspurn sé eftir húsnæði.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Á Egilsstöðum i nótt - RÚV- Rúnar Snær Reynisson

Skriðuhætta aukist í kjölfar vatnsveðra

Í miklu vatnsveðri í nóvember 2002 féllu skriður víða í Seyðisfirði. Í ágúst á síðasta ári varð að rýma og takmarka umferð einnig og í miklu vatnsveðri í lok ársins féllu margar spýjur beggja vegna fjarðarins. Meðal annars brutust flóð eftir lækjarfarvegi úr Neðri-Botnum, ofan byggðar sunnanmegin í firðinum, án þess að valda tjóni á mannvirkjum. Árið 2002 varð ljóst að miklar sprungur mynduðust í jarðvegi í Botnabrúnum ofan við bæinn sunnanverðan. Með því að bera saman sprungur og skriðurnar sem féllu við Austurveg þá, var hægt að áætla hvaða ferli voru í gangi við myndun sprungnanna. Í dag stendur yfir endurskoðun hættumats vegna ofanflóðahættu á í Seyðisfirði með sérstöku tilliti til aukinnar skriðuhættu. Lagðar verða til ýmsar leiðir til úrbóta og varna vegna skriðuhættunnar, en megináhersla liggur á mögulega hættu úr Strandartindi, Þófa og Neðri-Botnum.

Nýjar leiðir í skriðuvörnum

Líklegasta skýringin á skriðuföllunum og sprungumyndunum er mikið grunnvatnsrennsli á mörkum klappar og ofanáliggjandi lausra jarðlaga, auk eigin þunga þeirra. Hugsanlega má minnka grunnvatnsrennsli af völdum mikillar ofankomu eða leysingar með því að grafa drenskurði í Neðri-Botnum. Sérfræðingar frá Austurríki hafa komið að úttektinni á mögulegum varnarkostum en þar í landi hafa víða verið reist varnarvirki gegn skriðuföllum.

Sífrerasvæði í Strandartindi?

Svæðið ofan við Botnabrún heitir Neðri-Botnar og er umfangsmikill hjalli. Nokkrir farvegir eru yst í Neðri-Botnum, en innan við Búðará eru farvegir færri og smærri. Í miklum vatnsveðrum ná þeir engan veginn að flytja allt það vatn sem þarna kemur ofan úr Strandartindi heldur hripar umtalsvert vatn niður í hjallann sem gerður er úr þykkum bunka lausra jarðlaga, svo sem jökulruðningi sem situr ofan á hallandi klöpp.

Á svæðunum undir Strandatindi getur skapast nokkur hætta að mati Ágústs Guðmundssonar jarðfræðings en hann telur þurfa að bregðast sérstaklega við þar sem svæðin efst í Strandartindi séu ekki fyllilega rannsökuð. Í svokölluðum Efri-Botnum telur hann vera að finna sífrera sem líklegra sé að hlaupi fram með hlýnandi loftslagi. Hættuna sem skapist fyrir neðan sé ekki hægt að meta fyllilega.  Á svæðinu fyrir neðan Strandartind og Þófa er mest megnis að finna atvinnuhúsnæði en neðan við Botnabrún er talsverð íbúðarbyggð. Neðan við Botnabrún er eins og áður sagði hægt að nýta dren-varnir að hinni austurísku fyrirmynd.  

 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

 

Skrifstofur sveitarfélagsins á hættusvæði

Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri segir að þrýstingurinn um að fara aftur í gerð aðgerðaráætlunar sé mest megnis frá þeim sem eiga eignir á þessum hættusvæðum. Þar sem aðeins er um atvinnuhúsnæði að ræða séu áhyggjurnar ekki jafn miklar, til að mynda standi skrifstofur bæjarfélagsins að hluta til á hættusvæði C og standi ekki til að flytja þær. Það séu aftur á móti dæmi um að eigendur húsnæðis fái ekki leyfi til ákveðins rekstrar eða sé synjað um að breyta iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

Eigandi eins húss hefur velt því fyrir sér að fara í einkaframkvæmd ofanflóðavarna vegna mikilla framkvæmda sem hann hefur ráðist í á húsi sínu, sem ljóst er að séu tapaðar ef komi til þess að húsið sé keypt af honum. Ekki sé líklegt að varnir verði gerðar sérstaklega fyrir viðkomandi hús þar sem það standi eitt og sér. Í þessu felst vandinn að mati Vilhjálms, fólk verði að komast að því hvort að eignir þeirra verði keyptar upp eða hvort varnir verði gerðar þannig að hús séu örugg og fleiri svæði nýtileg fyrir nýbyggingar. 

 

Skrifstofur sveitarfélagsins á hættusvæði

Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri segir að þrýstingurinn um að fara aftur í gerð aðgerðaráætlunar sé mest megnis frá þeim sem eiga eignir á þessum flóðasvæðum. Þar sem aðeins um atvinnuhúsnæði að ræða séu áhyggjurnar ekki jafn miklar, til að mynda standi skrifstofur bæjarfélagsins að hluta til á hættusvæði C og standi ekki til að flytja þær. Það séu aftur á móti dæmi um að húsnæði fái ekki leyfi til ákveðins reksturs eða sé synjað um að breyta iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

Eigandi eins húss hefur velt því fyrir sér að fara í einkaframkvæmd ofanflóðavarna vegna mikilla framkvæmda sem hann hefur farið í á húsi sínu, sem ljóst er að séu tapaðar ef komi til þess að húsið sé keypt af honum. Ekki sé líklegt að varnir verði gerðar sérstaklega fyrir viðkomandi hús þar sem það standi eitt og sér. Í þessu felst vandinn að mati Vilhjálms, fólk verði að komast að því hvort að eignir þeirra verði keyptar upp eða hvort varnir verði gerðar þannig að hús séu örugg og fleiri svæði nýtileg fyrir nýbyggingar. 

 

arnaldurmf's picture
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV