Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Varðskipið gæti séð Grindavík fyrir helmingi rafmagns

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Varðskipið Þór gæti séð Grindavík fyrir helmingi þess rafmagns sem bærinn þarf. Skipið kom þangað í dag til að æfa tengingu við höfnina og dreifikerfi HS Veitna í bænum. 

Varðskipið kom að góðum notum á Dalvík eftir óveðrið í desember. Þá framleiddu vélar skipsins rafmagn fyrir bæinn meðan á viðgerðum stóð. Í dag kom Þór til Grindavíkur til að skipverjar, starfsmenn hafnarinnar og HS Veitna gætu undirbúið að tengja skipið, ef rafmagn færi af bænum. Þar er óvissustig almannavarna vegna landriss og mögulegrar kvikusöfnunar. 

Páll Geirdal Elvarsson, skipherra á varðskipinu Þór, segir að tilgangur heimsóknarinnar hafi verið að skoða hvernig skipið geti tengst veitukerfinu fyrir rafmagn. „Ef við gætum þurft að gefa þeim rafmagn ef eitthvað kæmi upp á, þannig að það sé klárt fyrir okkur að geta komið beint inn og tengst.“

Starfsmenn HS veitna skoðuðu vélarrúm skipsins í dag og tengingarmöguleika. Tengja þarf tuttugu og einn kapal úr skipinu inn í dreifistöð á hafnarkantinum og það ætti að ganga nokkuð hratt, segir Ólafur Stefánsson, svæðisstjóri hjá HS Veitum.

„Áætlun okkar gerir ráð fyrir sirka fjórum tímum,“ segir Ólafur, sem telur aðstæður góðar í höfninni.

„Já, mér sýnist það þegar varðskipið er komið hérna og við erum búin að máta þetta að þá líti þetta bara vel út.“  Hann telur það mikið öryggismál að eiga þennan möguleika.

Páll skipherra segir að varðskipið geti útvega tvö megavött. „Það er sirka fimmtíu prósent af því sem bærinn þarf.“

Þetta er í fyrsta skipti sem varðskipið kemur til Grindavíkur enda nýlega búið að dýpka höfnina. Sigurður Kristmundsson hafnarstjóri í Grindavík segir gott að vita til þess að svona öflugt skip sé til taks fyrir bæinn.