Varð ríkasta kona Afríku með arðráni og spillingu

19.01.2020 - 21:02
epa08096297 (FILE) - Isabel dos Santos in Luanda, Angola, 05 November 2011 (reissued 31 December 2019). A court in Angola has frozen the assets of Isabel dos Santos, the oldest daughter of former Angolan President Jose Eduardo dos Santos, on corruption charges.  EPA-EFE/BRUNO FONSECA
 Mynd: EPA - RÚV
Auður Isabel dos Santos, sem er talin ríkasta kona Afríku, er sagður vera byggður á arðráni og spillingu í heimalandi hennar Angóla. Þetta sýna meira en 700 þúsund skjöl sem ICIJ, alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, birtu í dag. Breskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um lekann enda hefur dos Santos gert Bretland að heimili sínu og á þar mikið af verðmætum fasteignum.

Isabel dos Santos er elsta dóttir Jose Eduardo dos Santos, fyrrverandi forseta Angóla. Hún er gift Sindika Dokolo, kaupsýslumanni og listaverkasafnara frá Kongó og er menntuð í Bretlandi. Talið er að auðæfi hennar nemi 2 milljörðum dollara, 251 milljarði. 

Í ítarlegri umfjöllun BBC kemur fram að dos Santos hafi fengið að kaupa ríkiseignir á undirverði og landareignir, olíufyrirtæki  og fjarskiptafyrirtæki þegar faðir hennar var forseti Angóla.  Á vef Guardian kemur fram að dos Santos hafi ekki komið til Angóla í meira en ár og haft eftir saksóknara að hún hafi flúið land eftir að yfirvöld óskuðu eftir að hún mætti til skýrslutöku. 

Dos Santos neitar allri sök og segir þetta nornaveiðar hjá stjórnvöldum í Angóla.  Sakamálarannsókn er hafin í heimalandi hennar og hafa eignir hennar þar verið frystar.

Í umfjöllun Guardian um dos Santos kemur fram að ríkidæmi hennar hafi lengi verið gagnrýnt, sérstaklega í ljósi þess að Angóla er eitt fátækasta ríki heims. Stuðningsmenn hennar telja aftur á móti að saga hennar eigi að vera afrískum konum hvatning og að auðæfi hennar séu afrakstur mikillar vinnu. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV