Varar við takmörkun á notkun flugelda

26.12.2019 - 19:55
Mynd: Rúv / Rúv
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að takmörkun á notkun flugelda hefði neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna og þau verðmæti sem hún skapar. Starfshópur umhverfisráðherra um flugeldamál hefur enn ekki skilað skýrslu sem átti að skila fyrir tíu mánuðum.

Feiknarmikið svifryk vegna flugelda myndast á gamlárskvöld ár hvert á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir tveimur árum þurftu fimmtán að leita á bráðamóttöku vegna öndunarerfiðleika og árið áður settu Íslendingar Evrópumet í mengun.

Í lok síðasta árs skipaði umhverfisráðherra starfshóp sem átti að leggja fram tillögur í febrúar um hvort og með hvaða hætti eigi að takmarka notkun flugelda. Hópurinn hefur enn ekki skilað inn tillögum. Sóttvarnalæknir situr í starfshópnum.

„Við vildum náttúrulega gjarnan hafa klárað þetta miklu fyrr en þetta var mikil vinna sem var lögð í þetta og við töluðum við marga hópa. Það var meðal annars það sem gerði það að verkum að þetta tafðist. Við vildum vanda eins vel til verka og við gátum. Það var kannski óraunhæft að það væri hægt að skila þessu svona snemma,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

„Það er nauðsynlegt að draga úr þessu á einhvern máta og koma þannig til móts við einstaklinga sem eru viðkvæmir fyrir og fá veruleg einkenni út úr þessari mengun. Það er ekki nokkur spurning,“ segir Þórólfur.

Í skriflegu svari umhverfisráðherra kemur fram að því verði ekki gripið sérstaklega inn í flugeldanotkun um þessi áramót. Þá hvetur ráðherra fólk til að styðja björgunarsveitir með öðrum leiðum en flugeldakaupum. 

Ekki eru þó allir sammála um ágæti þess að takmarka notkun flugelda. Framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar bendir á að það gæti fækkað ferðamönnum.

„Ferðamenn eru náttúrulega að koma hingað til að upplifa jól í öðru landi einhvers staðar á öðrum slóðum en venjulega. Þeir eru vissulega að koma hérna um áramótin kannski frekar en um jól til þess að upplifa að hluta til það sjónarspil sem er hér í flugeldunum á gamlárskvöld. Við sjáum að það er efni sem er mikið deilt á samfélagsmiðlum og er góð auglýsing líka fyrir Ísland sem ferðamannaland. Þannig að það er svona fleira sem hangir á spítunni en svifryk þegar menn horfa til þess hvort það eigi að grípa eitthvað inn í flugeldana eins og þeir eru í dag,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Ég held að út frá sjónarmiðunum um það hversu mikil verðmæti við viljum skapa af ferðamennsku á Íslandi þá held ég að bann á flugeldum á gamlárskvöld væri ekki góð hugmynd,“ segir Jóhannes.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi