Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Varar við mikilli mengun á gamlárskvöld

30.12.2017 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: ruv.is
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur varar borgarbúa við yfirvofandi svifryksmengun vegna flugelda á gamlárskvöld. Þá er fólk með öndunarfæra-, hjarta- og æðasjúkdóma hvatt til að halda sig innandyra og loka gluggum þegar nýtt ár gengur í garð.

Samkvæmt veðurspám verður hæg austanátt, léttskýjað og kalt á miðnætti á gamlárskvöld, þegar borgarbúar kveðja árið og heilsa því nýja með því að skjóta á loft hundruðum tonna af flugeldum venju samkvæmt. Varasamur fylgifiskur flugelda, og þá sérstaklega þegar veður er stillt eins og viðbúið er að verði á gamlárskvöld, er mikil svifryksmengun sem aldrei mælist meiri í borginni en þegar nýtt ár gengur í garð.

Á von á hamfaramengun

Hrund Ólöf Andradóttir, umhverfisverkfræðingur og prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gær að vegna veðurskilyrðanna sé von á loftmengun á höfuðborgarsvæðinu líkt og eftir náttúruhamfarir. Mengunin geti orðið hundraðfalt meiri en æskilegt sé.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur nú gefið út sérstaka viðvörun til borgarbúa vegna yfirvofandi loftmengunar á nýársnótt. „Við erum náttúrulega að beina því til fólks sérstaklega sem er mjög viðkvæmt fyrir; með astma, aðra öndunarfærasjúkdóma, hjarta- og æðasjúkdóma, og þá eins lítil börn sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir, kornabörn og ung börn, að þau haldi sig innandyra,“ segir Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við fréttastofu. „Því að þetta svifryk sem er að falla á nýársnótt er náttúrulega ekki þetta venjulega svifryk, það er í þessu þungmálmar og ýmis eiturefni. Þannig að þetta hefur jafnvel meiri heilsufarsáhrif heldur en þetta venjulega ryk sem er hérna á vegunum.“

Bætist við mikið svifryk sem fyrir er

Hún brýnir fyrir fólki sem kjósi að halda sig innandyra að loka gluggum kyrfilega og segir að fari sem horfir megi búast við að frískir finni sömuleiðis fyrir ertingu og óþægindum í öndunarfærum vegna loftmengunarinnar.

Svifryk við helstu umferðargötur borgarinnar mælist nú töluvert yfir heilsuverndarmörkum í vetrarstillunum og því bætist flugeldamengunin ofan í það. „Ég hvet bara fólk til þess að reyna að skjóta þá kannski frekar upp fyrr um kvöldið með börnunum sínum og reyna þannig að dreifa álaginu eitthvað,“ segir Svava. „Það sem er í flugeldum, þungmálmar og annað, þetta safnast bara upp í vistkerfinu okkar. Þetta fer með ofanvatninu niður í læki og ár og hefur áhrif á allar lífverur. Þannig að mín persónulega skoðun er sú að við ættum að reyna að takmarka þessa losun eins og hægt er.