Varar fólk við að skilja börn eftir í bíl

27.09.2019 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Helga Dís Svavarsdóttir - Aðsend mynd
„Bíllinn byrjar að fyllast af reyk þar sem hann er kyrrstæður við hús foreldra minna,“ segir Helga Dís Svavarsdóttir. Eldur kom upp í bíl foreldra hennar skömmu eftir að honum var ekið. Hún segir að slökkvilið og lögregla hafi komið á vettvang, lokað götunni og slökkt eldinn. Hún varar fólk við að skilja börn eftir í bíl.

Bíllinn, sem var af tegundinni Nissan Qashqai, árgerð 2015, hafi verið í góðu standi og vel hugsað um hann. Engin viðvörunarljós hafi logað skömmu fyrir atvikið. 

Ekki hægt að opna afturhurðir

Hún segir að það hafi verið heppni að engin hafi verið í bílnum, hvað þá barn í aftursætinu. Ekki var hægt að opna afturhurðir og skott bílsins þegar kviknaði í honum þar sem rafmagn fór af. 

Helga sér því ástæðu til þess að vara fólk við því að skilja börn sín eftir í bílum, sama hvort rétt sé verið að „skjótast í búð“ og sinna þess háttar erindagjörðum.

Annað slíkt tilvik hefur komið upp

Árið 2016 kviknaði í nýlegum Nissan Qashqai 2015 bíl Stellu Bjarkar Helgadóttur, þar sem hann var kyrrstæður. Hún segir að það hafi kviknað í vírum bílstjóramegin. Bíllinn hafi verið ónýtur eftir það. 

Matsmenn skoðuðu tjónið og lögfræðingur sá um samskipti við umboðið. Stella segir að þau hafi fengið tjónið að mestu bætt frá umboðinu og fengið nýjan bíl af sömu tegund en nýrri árgerð. „Maður er samt alltaf með varann á gagnvart börnunum sínum, að hafa þau ekki í bílnum,“ segir hún. 

Vill að flestir viti af atvikinu

Helga Dís segir að þau hafi haft samband við umboðið sem ætli sér ekki að koma til móts við þau að svo stöddu. Þau svör hafi fengist að alltaf sé hætta á að það kveikni í þegar raftæki eru annars vegar.

"Mér finnst hræðilegt ef þetta er þekktur galli hjá umboðinu, og hefur komið upp áður hér á landi og erlendis, og viðskiptavinir ekki upplýstir um hann.  Þetta hefði geta stofnað mínu barni í hættu. Þetta er mikilvæg forvörn, og ég vona að sem flestir viti af þessu og viðskiptaháttum umboðsins,“ segir hún.

Ekki miklar líkur á að svona gerist

Loftur Ágústsson markaðsstjóri B&L umboðsins segir að almennt geti það gerst, og hafi gerst í gegnum tíðina, að það kvikni í bílum. Þessi tvö tilvik séu þau einu sem vitað er til að hafi gerst hjá þeirra umboði. Þessi tegund af bíl, Nissan Qashqai, sé meðal þeirra vinsælustu bíla og hátt í annað þúsund þeirra á götunni. Því séu sem betur fer ekki miklar líkur á að svona komi fyrir. 

Loftur segir að tilvikin séu tekin mjög alvarlega. Umboðið geri allt sem þau geti gert. „Það verður brugðist við í þessu tilviki og atvikið tilkynnt til framleiðenda.“ Hann segir að yfirleitt komi ábendingar um galla frá framleiðanda og umboðið látið vita ef það þurfi að innkalla bíla. Ekki hafi verið tilkynnt um innköllun á bílunum vegna þessa og þetta er ekki galli sem umboðinu er kunnugt um, segir hann. 

Varðandi hvort það verði komið til móts við eigendur bílsins í þessu tilviki segir hann að alltaf þegar slík tilvik koma upp geri þau hjá umboðinu það sem þau geti gert. Þetta sé þó fyrst og fremst tryggingamál. 

Uppfært 15:59 Tveimur millifyrirsögnum hefur verið breytt.

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi