Varanlegur regnbogi gerður í miðborginni

05.06.2019 - 01:00
Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Bjarni Pétur - RUV
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í gær tillögu borgarfulltrúa meirihlutans um varanlegan regnboga í Reykjavik. Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verður svo falið að gera endanlega tillögu að staðsetningu og endanlegri útfærslu. 

Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi Viðreisnar og formaður Hinsegin daga, flutti tillöguna en hún var samþykkt einróma. 

Undanfarin ár hefur verið málaður regnbogi meðal annars á Skólavörðustígnum, fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík, fyrir framan Ráðhúsið og víðar. Þeir hafa verið málaðir í ágúst, en fjarlægðir að loknum Hinsegin dögum.

„Þetta er í raun og veru sambærileg framkvæmd, nema að þarna er hann varanlegur og ekki þveginn af nema að honum verði fundið heimili annarsstaðar á einhverjum tímapunkti,“ segir Gunnlaugur. 

Gunnlaugur segir að fyrirmyndin að varanlega regnboganum sé erlend. „Þetta hefur verið gert nokkuð víða í heiminum. Í Bandaríkjunum og Kanada og Ástralíu. Í París var þetta gert til þess að bregðast við þegar tímabundinn regnbogi á þeirra Pride-hátíðarhöldum var eyðilagður i einhverskonar homofóbískum tilgangi. Svar borgaryfirvalda var þá að gera hann varanlegan,“ segir Gunnlaugur. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi