Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Varaformaður VG segir Sigríði varla vært

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Edward Huijbens, varaformaður Vinstri grænna, segir að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra eigi að víkja ef skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og Umboðsmanns Alþingi á lögbrotum hennar kemur illa út. Mikilvægt sé að setja reglur um viðbrögð ráðherra við svona aðstæðum

Í ræðu sinni á flokksráðsfundi VG í morgun sagði Edward: „Það hitnar undir Sigríði Á Andersen og til að þetta eldist nú allt vel og brenni ekki, er betra að hækka hitann rólega.“ Lágvært hlátrasköll heyrðust í salnum í kjölfar þessara orða.

Edward segir að þar vísi hann í skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og umboðsmanns Alþingis á afleiðingum þess að ráðherra brjóti lög. „Auðvitað tel ég að ráðherra sé varla vært við þær aðstæður, en það skulum við bara vanda okkur við að gera og teikna upp vandlega hver staða ráðherra er þegar svona er komið upp.“

Edward sagði jafnframt í ræðunni að kjósendur bæru líka ábyrgð á að Sigríður sæti við völd. Hann segir að með því sé hann ekki að víkja VG undan ábyrgð sem fylgir því að fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. „Auðvitað er ábyrð VG sú að við förum í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum vitandi af þessu máli, það er alveg rétt. En við hljótum að þurfa að horfa til þess að einhverjir kusu þennan ráðherra á þing. Auðvitað eru ráðherrar ekki kosnir, að sjálfsögðu ekki, og kjósendur hafa lítið um það að segja hverjir eru skipaðir í ríkisstjórn. En það hlýtur að ráðast af þingstyrk hvernig þetta raðast upp og það er einn af hverjum fjórum sem kaus Sjálfstæðisflokkinn vitandi það. Ég vil líka benda á að kjósendur veita fólki eins og Sigríði völd.“

Aðspurður í hvaða stöðu málið er ef skoðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og umboðsmanns Alþingis kemur illa út fyrir ráðherrann segir Edward. „Ég vona þá að hún sjái að sér hreinlega, taki þá af skarið og sýni það pólitíska þor að segja af sér. Það er það em ég vonast til. Ég vonast líka til að Sjálfstæðisflokkurinn sem hún situr fyrir bendi á að hún þurfi að gera eitthvað í málinu. En það er ekki vilji Vinstri grænna að gera skýlausa kröfu um afsögn hennar þvert á vilja Sjálfstæðismanna og þar með sprengja ríkisstjórnina. Það er ekki okkar vilji.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV