Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Varað við óvenju öflugri lægð

29.06.2014 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Veðurstofan varar við óvenju öflugri lægð miðað við árstíma á þriðjudag og miðvikudag. Búast má við tíu til átján metrum á sekúndu á þriðjudag og allt að 35 metrum á sekúndu í hviðum. Einna hvassast verður um landið suðvestanvert.

Veðrinu fylgir mikil rigning sunnanlands síðdegis og um kvöldið á þriðjudag. Lægðin fer til norðausturs á miðvikudag en óvíst er hvar veðrið verður verst. Vísbendingar eru um að mesti vindurinn verði úr norðvestri um landið suðvestanvert um kvöldið á meðan mesta úrkoman verður líklega norðvestanlands og á Vestfjörðum. Ferðalangar með aftanívagna eru hvattir til að huga sérstaklega að veðurathugunum og veðurspá næstu daga. Þeir sem ætla að heiman eru beðnir að huga að lausamunum.

Viðvörun Veðurstofu er svohljóðandi:

Gert er ráð fyrir óvenju öflugri lægð miðað við árstíma á þriðjudag, sem fer yfir landið á miðvikudag.

Á þriðjudag verður lægðin vestur af landinu og vindáttin því suðaustlæg og má búast við að vindstyrkurinn verði á bilinu 10-18 m/s, einna hvassast um landið SV-vert og hviður við fjöll allt að 35 m/s. Þessu fylgir mikil rigning, mest sunnanlands síðdegis og um kvöldið.

Á miðvikudag er að sjá að lægðin fari til norðausturs og verði skammt norður af landinu. Á þessari stundu er óvíst hvar versta veðrið verði, en vísbendingar eru um að mesti vindurinn verði úr norðvestri um landið suðvestanvert um kvöldið á meðan mesta úrkoman verður líklega norðvestanlands og á Vestfjörðum.

Síðan er gert ráð fyrir að lægðin fari til austurs og ákveðin norðanátt taki yfir með rigningu fyrir norðan, en þurrt að kalla syðra.

Lítið þarf út af að bera í staðsetningu lægðarinnar til að áhvarða hvar versta verðið verður á hverjum tíma, þannig að einhverra breytinga er að vænta þegar nær dregur.

Að gefnu tilefni viljum við minna þá ferðalanga á sem eru með aftanívagna að huga sérstaklega að veðurathugunum og veðurspá næstu daga og að þeir sem eru að fara að heiman að huga að lausamunum.