Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vara við þróun vopnaðra vélmenna

25.08.2017 - 19:19
Mynd: Steindór Grétar Jónsson / Steindór Grétar Jónsson
Flestir tengja vopnuð vélmenni eflaust við vísindaskáldskap. Nokkir helstu sérfræðingar á sviði gervigreindar í heiminum sjá þó ástæðu til að vara við þróun sjálfstýrðra vopna. Nái slík vopn útbreiðslu verða afleiðingarnar ófyrirséðar, segir einn sérfræðinganna.

Í kvikmyndunum um Tortímandann ferðast vopnuð vélmenni aftur í tímann til að taka fólk af lífi.

Myndirnar eru sannarlega ekki byggðar á sannsögulegum atburðum. En tilvist vopnaðra vélmenna er þó ekki jafn fjarstæðukennd og mörgum kann að þykja.

„Við erum þegar með frumgerðir af sjálfstýrðum vélbyssum, vopnum og sprengjum. Fá þeirra hafa reyndar verið nýtt eða sett í notkun en við erum með einhver dæmi þess. Til dæmis vélbyssurnar sem notaðar á landamærum Suður- og Norður-Kóreu,“ segir dr. Kristinn R. Þórisson, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands.

Kristinn er einn 116 sérfræðinga á sviði gervigreindar sem sendu hvatningu til Sameinuðu þjóðanna á dögunum um að beita sér gegn hönnun sjálfstýrðra vopna. 

„Okkur þykir nauðsynlegt núna að vekja fólk til umhugsunar um þetta mál og í rauninni ekki seinna vænna að íhuga alvarlega að setja á bann við svona gervigreindum vopnum,“ segir Kristinn. 

Hann segir gervigreind, eins og aðra tækni, bæði hægt að nýta til góðra og slæmra verka. Ný heimsmynd blasi við verði gervigreind nýtt á ómannaða skriðdreka, vopnuð vélmenni, dróna og önnur tæki í hernaði.

„Við erum að tala um framíð okkar á þessarri plánetu. Ef við viljum sjá minnkun á vígvæðingu og vígbúnaði eða allavega ekki aukningu þá er þetta helsti vaxtabroddurinn og alveg ófyrirséðar afleiðingar sem gætu hlotist af því,“ segir Kristinn.

 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV