Vara við stöðu sérnáms lækna

19.05.2018 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Læknaráð Landspítala varar við ófremdarástandi í íslensku heilbrigðiskerfi vegna stöðu sérnáms lækna. Í ályktun á aðalfundi ráðsins í gær beinir það þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra og landlæknis að efla og tryggja framhaldsnám lækna hér á landi. Aðeins séu læknar í viðurkenndu, fullu sérnámi í heimilislækningum og geðlækningum hér á landi. „Það sérnám sem boðið er upp á er aðeins hlutanám og oft ekki formlega viðurkennt,“ segir í ályktuninni.

Ráðið bendir á að starf lækna sé að taka örum breytingum samhliða breyttri aldurssamsetningu. Sú breyting kalli á fjölgun í mörgum sérgreinum sem ekki verði sinnt með núverandi áherslum. Læknaráðið telur nauðsynlegt að fjölga sérfræðilæknum og að hægt sé að veita mun öflugra sérnám á Landspítala.

Eftirfarandi er ályktunin í heild sinni:

Stjórn Læknaráðs ályktaði á fundi að beina þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra og landlæknis að efla og tryggja framhaldsnám lækna á Íslandi. Læknaráð bendir á að það geti skapast ófremdarástand í íslensku heilbrigðiskerfi ef ekki verður gripið inn í. Enginn almennur læknir er í fullu viðurkenndu sérnámi á Íslandi nema í heimilislækingum og geðlækningum. Það sérnám sem boðið er upp á er aðeins hlutanám og oft ekki formlega viðurkennt.

Starf lækna er að taka örum breytingum samhliða breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Kallar þessi breyting á mikla fjölgun í mörgum sérgreinum sem ekki verður sinnt með núverandi áherslum. Það er nauðsynlegt að auka fjölda sérfræðilækna með breiða og almenna þekkingu í íslensku heilbrigðiskerfi til þess að tryggja réttar áherslur við þjónustu sjúklinga til framtíðar. Gegnir Landspítalinn þar mikilvægu hlutverki og hægt er að veita mun öflugra sérnám á okkar stærsta kennslusjúkrahúsi.

Embætti Landlæknis í Bretlandi er meðal þeirra sem hafa bent á nauðsyn þess að sérnám feli í sér breiða þekkingu á grunnstigi, að auka flæði á milli sérgreina og að fleiri þættir en klínísk vinna telji að sérfræðileyfi eins og vísindavinna. Til að ná þessum markmiðum þarf að fjölga almennum læknum á Íslandi innan flestra sérgreina á öllum stigum náms og styðja við sérnámslækna á Íslandi og þá sem huga að námi erlendis. Raunveruleg hætta er á því að missa almenna lækna af landi brott og að þeir ráði sig ekki til starfa á Íslandi eftir að námi lýkur.
Íslenskir læknar í sérnámi á Íslandi eða erlendis geta ekki sótt um íslenskt sérfræðileyfi vegna óvissu um heimildir Landlæknis til að veita leyfi sem gildir innan EEA. Ein af ástæðunum fyrir því er vöntun á skipulögðu og samþykktu framhaldsnámi lækna á Íslandi. Þetta veldur því að fjöldi almennra lækna starfar í óvissu um það hvort vinna þeirra teljist að sérfræðileyfi. Það er óásættanleg staða fyrir alla sem að málinu koma og stjórn læknaráðs ályktar um að stjórnvöld eyði þeirri óvissu án tafar.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi