Vara við óprúttnum hótelgestum á Norðurlandi

17.11.2019 - 03:58
Mynd með færslu
Óþekktir og óprúttnir aðilar eru sagðir hafa stungið af frá ógreiddum reikningi með stolinn síma og valdið hótelhaldara á Laugarbakka yfir 80.000 króna tjóni. Grunur leikur á um að sömu menn hafi stolið enn meiri verðmætum af hótelhaldara á Akureyri Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Óprúttnir ferðalangar hafa síðustu daga stundað það að panta sér gistingu á Norðurlandi, stela verðmætum og stinga svo af án þess að borga fyrir næturgreiðann. Er varað við þjófunum í tveimur færslum á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar.

Þar kemur fram að herbergi séu pöntuð á nafninu Julia Hurley. Bókuð sé gisting í tvær nætur og lofað greiðslu við brottför. Tveir karlmenn mæti svo á staðinn, en láti sig hverfa eftir fyrri nóttina með þýfi sitt.

Á Hótel Laugarbakka borðuðu tvímenningarnir kvöldmat sem þeir létu skrifa á herbergið og stálu svo síma og tóku með sér þegar þeir laumuðust á brott. Segist hótelhaldari sitja uppi með tjón upp á ríflega áttatíu þúsund krónur. Hvetur hann fólk í gistigeiranum til að hafa varann á og hafa samband við lögreglu, verði það vart við eitthvað svipað.

Á Viking Cottages & Apartments á Akureyri var sama uppi á teningnum. Bókað var í nafni Juliu Hurley, sem sögð er frá Englandi. Þeir sem síðan mættu á staðinn stálu þaðan verðmætum sem hótelhaldari metur á um 200.000 krónur. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi