Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vara við ferðamanni í leit að gistingu

07.08.2018 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Lögreglan á Norðurlandi vestra varar við erlendum ferðamanni sem fer á milli íbúðarhúsa og segist vera í leit að gistingu. Maðurinn hefur orðið uppvís að því að fara í leyfisleysi inn á heimili fólks. Ekki er vitað hvort hann er á ferðinni í saknæmum tilgangi.

Vakin er athygli á ferðum mannsins í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Þar kemur fram að borist hafi nokkrar tilkynningar úr umdæminu um að erlendur ferðamaður hafi ýmist bankað hjá fólki eða gengið rakleiðis inn í hús. Segist hann vera í leit að gistingu. 

Einkennileg framkoma

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra, segir í samtali við fréttastofu að maðurinn hafi komið við á nokkrum stöðum í Skagafirði, bæði á Hofsósi og á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. „Hann hefur ekkert gert af sér eftir því sem við best vitum, en framkoma hans er mjög einkennileg,“ segir Stefán Vagn. Þannig hafi manninum ítrekað verið bent á gistiheimili, en hann hafi ekki nýtt sér þau. 

Vilja ná tali af manninum

Ekki hefur verið tilkynnt um innbrot eða þjófnað sem rekja má til ferðamannsins og er ekki vitað hvort hann er á ferðinni í saknæmum tilgangi. Hins vegar vill lögregla gjarnan ná tali af honum. „Okkur finnst óeðlilegt að ferðamenn séu komnir inn á heimili hjá fólki og beri því svo við að þeir séu að leita að gistingu,“ segir Stefán Vagn.

Fólk er því beðið að hringja í 112 ef það verður vart við ferðamann sem bankar á dyr eða gengur inn í íbúðarhús og segist vera í leit að gistingu. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV