Vara Kínverja við að ferðast til Svíþjóðar

17.09.2018 - 22:39
epa03642762 A general view of Stockholm city centre, with one of city landmarks, the Gamla Stan (old city) with the tower of the German church (C) and Storkyrkan church (C-L) as seen from Slussen, Stockholm, Sweden, 10 March 2013. At right from German
 Mynd: EPA
Kínversk stjórnvöld hafa varað Kínverja við að ferðast til Svíþjóðar eftir að lögregla fjarlægði kínverska fjölskyldu af farfuglaheimili í Stokkhólmi. Lögreglan vísar gagnrýni á bug og segist ekki ætla að rannsaka málið.

Kínverska fjölskyldan kom inn á farfuglaheimili í miðborg Stokkhólms þann 2. september og vildi fá herbergi degi fyrr en áætlað var þar sem faðirinn væri veikur. Hún fékk þau svör að það væri ekki hægt. Fjölskyldan spurði þá hvort hún mætti halda til í móttökunni þar til hún fengi herbergið sitt. Svarið var nei og fjölskyldan var beðin að hverfa á brott. Því neitaði hún og starfsmaður farfuglaheimilisins ákvað þá að leita liðsinnis lögreglunnar. Lögreglan kom og endaði á að fjarlægja fólkið með valdi. Hún ók fólkinu síðan á brott. Fjölskyldan segir í samtali við kínverska fjölmiðla að henni hafi verið ekið seint að kvöldi í kulda inn í Skógarkirkjugarðinn þar sem þau hafi heyrt óþægileg dýrahljóð. Þau hafi leitað til vegfarenda sem hafi hjálpað þeim að komast aftur inn í borgina.

Lögreglan segir ekkert óeðlilegt við þessi vinnubrögð. Þegar fjarlægja þurfi fólk, sé farið með það langt frá þeim stað þar sem það olli vandræðum. Fyrir því sé heimild í lögum, og ekkert í málinu sé athugavert. Lögregla muni því ekki rannsaka málavexti frekar. Fólkinu hafi í raun verið ekið að lestarstöð sem sé í útjaðri kirkjugarðsins, sjö kílómetra frá farfuglaheimilinu.

Málið hefur vakið mikla athygli í Kína. Kínversk stjórnvöld eru ekki ánægð og hafa í raun varað Kínverja við því að ferðast til Svíþjóðar.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi