Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Var föst í snjóflóðinu í rúman hálftíma

15.01.2020 - 02:53
Mynd með færslu
 Mynd: Steinunn Guðný Einarsdóttir - Aðsendar myndir
Unglingsstúlkan, sem björgunarsveitarmenn björguðu úr snjóflóði á Flateyri í kvöld, var föst í snjóflóðinu í rúman hálftíma. Systkini hennar, 5 ára gömul stelpa og 9 ára gamall drengur, komust út úr húsinu ásamt móður sinni með því að klifra út um glugga.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fór snjóflóðið í gegnum húsið og út að stofuglugga sem vísar niður í bæ.   Einhver snjór fór inn í herbergi drengsins og telpunnar en þau komust bæði til móður sinnar sem var stödd inni í stofu. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er stúlkan, sem er á fermingaraldri, ekki mikið slösuð.  VOn er á lækni frá Ísafirði til að líta á hana. Magnús Einar Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar, segir að herbergi stúlkunnar hafi verið fullt af snjó og að það hafi verið gamla, góða snjóflóðastöngin sem hafi fundið rúm hennar og komið björgunarsveitarmönnum á snoðir um hana.  „Þetta var fyrst púðursnjór en svo bara steypa þegar menn fóru að grafa,“ segir Magnús en tvö hús eru þarna hlið við hlið og fór flóðið bara á annað þeirra.

Magnús segir að flóðið sem fór yfir höfnina sé ógnarstórt, sennilega um fimm til sex metra hátt.

Íbúar á Flateyri hafa verið beðnir um að halda kyrru fyrir og íbúar á Suðureyri að halda sig frá höfninni. Þrjú stór snjóflóð féllu í kvöld og er varðskipið Þór væntanlegt til Flateyrar með 35 björgunarsveitarmenn.

Gísli Jón Kristjánsson, eigandi Öldu ÍS, sem var eina skipið sem bjargaðist í höfninni í Flateyri, segir í samtali við fréttastofu að það sé greinilegt að krafturinn í flóðinu hafi verið mikill. „Þetta er allur flotinn sem er þarna farinn og flotbryggjan líka. Þetta hefur verið gríðarlegt högg,  það er mikill snjór í höfninni. Þetta er algjör hörmung.“

Meðal þeirra báta sem lentu í snjóflóðinu var stálbáturinn Guðjón Arnar ÍS sem nefndur í höfuðið á Guðjóni Arnari Kristjánssyni, skipstjóra og síðar Alþingismanni, að því er fram kemur á vefnum Aflafréttir.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV