Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Var að því komin að svipta sig lífi

12.12.2012 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd:
„Líf mitt var myrkur,“ segir maður sem glímdi árum saman við geðraskanir, en hefur náð bata. Hann hefur sótt stuðning hjá Hugarafli. Það hafa fleiri gert, til að mynda ung kona sem var að því komin að svipta sig lífi þegar hún fékk hjálp.

Félagar í Hugarafli, samtökum fyrir geðsjúka í bata, afhentu þingmönnum bók og disk sem hefur að geyma reynslusögur geðsjúkra og minntu á að það jafngildi ekki dauðadómi að fá geðsjúkdóm.

Sigrún Halla Tryggvadóttir er á batavegi. „Ég er sem sagt greind með þunglyndi, félagsfælni og kvíða. Ég var alltaf feimin sem barn og átti erfitt með að eignast vini. Ég átti erfitt með að vera í hóp af því að mér leið svo illa af því að mér fannst fólk alltaf vera að dæma mig. Ég var lögð í einelti í grunnskóla,“ segir hún. 

Á unglingsárunum var Sigrún Halla orðin þunglynd og það ágerðist næstu ári.  „Ég átti erfitt með að tengjast fólki og kynnast nýju fólki,“ segir hún. „Og að fara í skólann var rosalega erfitt og líka að vera innan um fólk.“ Þetta endaði með því að hún einangraði sig og fór ekki út úr húsi. „Mér fannst ég vera aumingi,“ segir hún. „Mér fannst ég vera ómöguleg og ekki eiga skilið að vera til.“

Fyrir þremur árum fór að rofa til hjá Sigrúnu Höllu. „Þegar ég er komin á botninn, þegar ég bara hreinlega ætla að enda mitt eigið líf, tek ég þessa ákvörðun um að gefa mér eitt tækifæri í viðbót.“

Sigrún Halla fékk læknishjálp og nýtur stuðnings fjölskyldu og Hugarafls. „Hérna hittir maður fólk sem skilur mann, maður þarf ekkert að útskýra allt algjörlega.“

Eymundur L. Eymundsson er einn þeirra sem notið hefur stuðnings í Hugarafli.  „Ég fer að finna fyrir kvíða þegar ég er svona sex sjö ára gamall. Svona um 13 ára aldur er þetta orðin svo mikil félagsfælni að ég er farinn að leika trúð. Mér líður aldrei vel en til þess að sýna ekki að mér liði ekki vel fer ég að leika trúðinn,“ segir hann. „Þegar maður er að glíma við svona mikla félagsfælni þá er maður klökkur, maður roðnar, og langar að hverfa bara. Mann langar að deyja.“

Eymundur segist hafa fundið fyrir skömm og ekki þorað að tala um þetta. „Mitt líf var eiginlega myrkur og minn griðastaður var herbergið mitt.“ Hann hafi ekki getað talað um líðan sína. „Vegna þess að maður er svo hræddur um að vera dæmdur. Maður eigi ekki að vera svona. Rífðu þig bara upp, heldurðu að þú getir ekki verið úti í þjóðfélaginu eins og hver annar,“ spurði hann sjálfan sig. 

Hann segist hafa kviðið því að vakna á hverjum degi. Fyrir sjö árum fékk Eymundur hjálp. Bæði Eymundur og Sigrún Halla leggur áherslu á að þau verði að vinna fyrir sinni vellíðan og bata. „Því fyrr sem maður fær hjálp því betra og það er von.“