Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Var að aðstoða bónda við að koma á rafmagni

12.12.2019 - 08:03
Piltur féll í Núpá í Sölvadal. Kort af svæðinu.
 Mynd: Fréttir
Unglingspiltur féll í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði í gærkvöld þegar hann var aðstoða bónda við að koma á rafmagni. Hann er enn ófundinn. Krapabylgja hreif piltinn með sér en bóndinn náði að koma sér undan bylgjunni.

Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, segir að tilkynning hafi borist um tíuleytið í gærkvöldi. 

„Það er þarna heimarafstöð og lón og stíflumannvirki sem þeir voru að vinna við að hreinsa krapa frá inntaki. Þeir stóðu þarna uppi á veggnum og öðrum þeirra tókst að forða sér undan bylgjunni en hinum ekki og lenti þarna ofan í ánni sem tók hann með sér. “

Björgunarsveitum og lögreglu var þá gert viðvart. Aðgerðastjórn hafði verið virkjuð vegna ýmissa verkefna í tengslum við óveðrið. Öllum mannskap sem var að störfum var þegar í stað beint á staðinn. Erfitt var fyrir björgunarfólk að komast að því ófært var landleiðina fyrir bíla. Enn sem komið er hefur leit ekki borið árangur.

Á fjórða tug manna var að störfum í nótt, þar af tíu manna hópur sem er sérhæfður í straumvatnsbjörgun, kafarar frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra. Þá hafa verið gerðar frekari ráðstafanir til að fá meiri mannskap og er 20-25 manna hópur lagður af stað á átta bílum frá Blönduósi og Reykjavík. Aðstæður á vettvangi eru afar erfiðar.

„Veðrið hefur nú bara haldist mjög svipað. Það er svolítið hvassviðri þarna og frost þannig að það er mikil vindkæling og erfitt að vinna í margar klukkustundir við þau skilyrði þannig að fólk kólnar niður. Síðan er auðvitað myrkur, vetrarmyrkur hjá okkur núna, og þar að auki er krapi í ánni sem gerir þetta enn þá vandasamara,“ segir Jóhannes. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg