Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vantrauststillaga ekki rædd á Alþingi á morgun

06.04.2016 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Niðurstaðan er sú að það verður óundirbúinn fyrirspurnartími á morgun þar sem m.a. sitja fyrir svörum fjármálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Við höfum ákveðið í ljósi þess að aðstæðurnar eru mjög sérstakar að hafa þetta tvöfalt lengi umræðutíma en vaninn er,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. Vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar verði ekki tekin á dagskrá á morgun.

Þetta sagði Einar að loknum fundi með formönnum þingflokkanna. 

„Það er alveg ljóst mál að það er mikil óvissa sem ríkir. Núverandi forsætisráðherra hefur lýst því yfir að hann hyggist stíga til hliðar. Það getur vel verið að aðstæðurnar verði orðnar gerbreyttar á morgun frá því sem þær eru á þessari stundu. Ég taldi því óráðlegt að taka þá vantrauststillögu sem nú liggur fyrir formlega á dagskrá með sólarhringsfyrirvara, hún kynni að verða úrelt á morgun. Ég hef hins vegar haldið því opnu með hvaða hætti við boðum síðan til fundar. Alþingi er starfandi, ég er þingforseti. Ég get kallað til þingfundar með mjög skömmum fyrirvara og geri það auðvitað ef á þarf að halda. Fyrir mér vakir ekki annað en gefa mönnum tækifæri til þess að ræða sig til niðurstöðu varðandi þessa vantrauststillögu. En þá er á það að líta að aðstæðurnar geta verið orðnar breyttar ef t.d. breytingar verða varðandi skipan nýs ráðuneytis, þá má segja að sú vantrauststillaga sem lögð var fram á mánudaginn var, hún myndi ekki eiga við þær aðstæður,“ segir Einar.

Einar segist kalla til fundar með þingflokksformönnum um leið og tilefni sé til. „Og það er auðvitað minn ásetningur að hér geti orðið þingfundur áfram á föstudag,“ segir Einar.

Aðspurður segist Einar ekki geta tjáð sig um það hvort niðurstaða verði komin á morgun í viðræður Bjarna Benediktssonar, formann Sjálfstæðisflokksins, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns Framsóknarflokksins. 

Andrúmsloftið ekki gott
En er viðbúið að nýtt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fái vinnufrið fyrir stjórnarandstöðunni á Alþingi? Hvernig meturðu stöðuna? „Það er auðvitað erfitt að meta hana á þessari stundu. Ég trúi nú ekki öðru en menn reyni a.m.k. að gefa þinginu þann vinnufrið að það sé hægt að takast á við knýjandi mál. En það er augljóst mál að andrúmsloftið er ekki gott um þessar mundir og það er erfitt að vinna sig upp úr því. Það geri ég mér mæta vel grein fyrir. En ábyrgð okkar þingmanna er auðvitað mjög mikil í þeim efnum. Það eru mál sem þarf auðvitað að klára, það hefur legið fyrir, við sjáum bara svo til,“ segir Einar.

Þú hefur verið orðaður við forsætisráðherrastólinn, hvað segirðu um það? „Ja, ég hef nú bara heyrt þetta í fjölmiðlum þannig að ég tel nú ekki að það mál sé neitt á dagskrá,“ segir Einar.

En er Einar sammála því mati manna að Sigmundur Davíð hafi reynt að fara á svig við þingið með því að leita til forsetans um þingrofsheimild. „Ég vil bara einfaldlega ekkert tjá mig um þetta mál frekar vegna þess að ég var ekki aðili að málinu, ég var ekki þátttakandi í fundum. Ég er einfaldlega að segja það að þingið hefur öll sín færi, þingið hefur auðvitað sína stöðu, Alþingi er starfandi, ég er þingforseti og get kallað til fundar hvenær sem ég vil,“ segir Einar.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV