Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vantraust samþykkt á kanslara Austurríkis

27.05.2019 - 15:05
epa07606009 Austrian Chancellor Sebastian Kurz is leaving his seat on the cabinet bench after losing a no-confidence vote during a special session of the parliament at the temporary parliament building at the Hofburg Palace in Vienna, Austria, 27 May 2019. Kurz faced a no-confidence vote in parliament after his government's coalition partner, the far-right Freedom Party (FPOe) had come under fire over a secretly filmed video which appeared to show FPOe leader and Vice-Chancellor Heinz-Christian Strache promising public contracts in return for election campaign donations from a fake Russian backer.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA
Sebastian Kurz stígur úr stóli kanslara í síðasta sinn eftir að vantraust var samþykkt á hann. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnarkreppa er í Austurríki eftir að þingið í Vínarborg samþykkti vantraust á Sebastian Kurz kanslara og stjórn hans í dag. Forseta landsins bíður það verkefni að finna kanslaraefni til að stjórna landinu þar til kosið verður til þings, líkast til í september.

Þingmenn Frelsisflokksins sem voru í stjórn með Sebastian Kurz og Þjóðarflokknum þar til fyrr í þessum mánuði greiddu atkvæði með tillögunni um vantraust.

Stjórnarsamstarfið fór út um þúfur þegar myndband frá árinu 2017 kom í leitirnar þar sem Heinz-Christian Strache, leiðtogi Frelsisflokksins og varakanslari landsins, féllst á tilboð konu sem kvaðst vera frænka rússnesks auðkýfings um að kaupa hlut í málgagni flokksins. Í staðinn ætlaði hann að útvega henni verkefni á vegum hins opinbera. Strache varð að segja af sér varakanslaraembættinu og formennsku í flokknum.

Þrátt fyrir þessa niðurlægingu á Strache sér fjölda fylgjenda. Það sýndu kosningar til Evrópuþingsins í gær. Strache var neðstur á framboðslista flokksins, en náði eigi að síður kjöri þar sem kjósendur Frelsisflokksins greiddu honum persónulega 33 þúsund atkvæði.

Að sögn austurrískra fjölmiðla er óvíst hvort hann tekur sætið. Flokkurinn dalaði í fylgi um sautján prósent frá því að síðast var kosið til Evrópuþingsins árið 2014.