Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vantraust á miðvikudag verði frestun

04.03.2013 - 18:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, mun leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina á miðvikudag ef heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verður frestað.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hyggst bjóða til sín formönnum annarra flokka og reyna að ná þverpólitískri sátt um stjórnarskrárbreytingar í áföngum. 

Nokkur ólga hefur verið í þingflokki Samfylkingarinnar vegna tillögu Árna Páls Árnasonar um að fresta heildarendurskoðun. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, vildi ekki tjá sig við fjölmiðla eftir þingflokksfund í dag, en Valgerður Bjarnadóttir, formaður eftirlits-  og stjórnskipunarnefndar, sagði þetta um málið. 

„Nú er málið í höndum formanns flokksins. Ég hef skilað því sem mér bar og nú rekur hann málið áfram". Valgerður kvaðst styðja formanninn. Aðspurð um þhvort hún og aðrir þingmenn sem mest hefðu talað fyrir þessu ferli eins og það væri núna myndu styðja formanninn í því að breyta því sagði Valgerður að sjá yrði hvað út úr samningaviðræðunum kæmi. 

Formenn annarra flokka en Hreyfingarinnar eru tilbúnir til þessara viðræðna þótt Sjálfstæðismenn séu ekki mjög bjartsýnir á að þær beri nokkurn árangur. Þór Saari segist hins vegar ekki til í að ræða neitt annað en að lengja þing og klára málið. „Við gerum ráð fyrir því að stjórnarskráin verði fyrsta mál á dagskrá á þingfundi á miðvikudag, þegar þing kemur saman að nýju, og samhliða því þarf að koma fram dagskrártillaga um það hvernig málinu verði lokið. Ef það gerist ekki á miðvikudaginn, þá munum við leggja fram tillögu um vantraust á miðvikudag".