Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vanþakklát hjón eða ofsótt hertogaynja?

19.01.2020 - 17:16
epa08139592 (FILE) - Britain's Prince Harry (R), Duke of Sussex and his wife Meghan, Duchess of Sussex, holding their son Archie, visit the Desmond & Leah Tutu Legacy Foundation in Cape Town, South Africa, 25 September 2019 (reissued 18 January 2020). Prince Harry and his wife Meghan, who in a statement on 08 January announced that they will step back as 'senior' royal family members and work to become financially independent, will no longer use their HRH titles, Buckingham Palace said in a statement on 18 January 2020. Media reports also state that the couple plans to pay back some 2.8 million euro which were payed by taxes for the renovation of their Cottage home in Britain.  EPA-EFE/TOBY MELVILLE / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Thomas Markle, faðir Meghan Markle, segir að hertogahjónin af Sussex séu að breyta bresku krúnunni í Walmart með kórónu og að þau séu týndar sálir. Elísabet Bretadrottning fór hins vegar fögrum orðum um hjónin í yfirlýsingu til breskra fjölmiðla og hrósaði Meghan sérstaklega fyrir það hversu fljótt hún hefði orðið hluti af fjölskyldunni.

Tæpar tvær vikur eru þar til Bretar ganga úr Evrópusambandinu sem í daglegu tali er kallað Brexit. Það sem breska þjóðin hefur hins vegar öllu meiri áhuga á um þessar mundir er það sem bresku blöðin hafa kallað „Megxit“. 

Sambandið við bresku pressuna súrnar

Megxit snýst um ákvörðun Harry prins og Meghan Markle að segja skilið við bresku konungsfjölskylduna. Hjónin sendu frá sér yfirlýsingu þann 8. janúar þar sem þau sögðust ætla að verða fjárhagslega sjálfstæð og skipta tíma sínum jafnt milli Bretlands og Norður-Ameríku. 

Bresku götublöðin spöruðu ekki stóru orðin, sögðu þetta svik við drottninguna og kölluðu þau vanþakklátustu hjón í sögu Bretlands. Þessu var líkt við það þegar Játvarður prins afsalaði sér krúnunni til að ganga að eiga Wallis Simpson árið 1936, ákvörðun sem leiddi til þess að Elísabet varð síðar drottning.

Breskir fjölmiðlar tóku Meghan opnum örmum til að byrja en samband þeirra súrnaði fljótt. Dramatíkin í kringum brúðkaupið, samskipti Meghan og föður hennar og misgáfulegar yfirlýsingar systkina hennar voru daglegt brauð á forsíðum bresku götublaðanna.

Þegar hertogahjónin af Sussex ákváðu að halda skírnarathöfninni hjá syni sínum leyndri og sögðust vilja vernda einkalíf sitt var eins og fjandinn væri laus. Breska blaðið Guardian greindi fréttir bresku götublaðanna um Meghan. Sú rannsókn leiddi í ljós að helmingi fleiri neikvæðar fréttir höfðu verið skrifaðar um Meghan en jákvæðar og að viðhorfið hefði breyst mikið eftir brúðkaupið.

Fréttir leka úr Buckingham-höll

Harry og Meghan sögðu fjölmiðlum síðan endanlega stríð á hendur þegar hertogaynjan fór í mál við Daily Mail eftir að blaðið birti handskrifað bréf hennar til föður síns.  Lögmenn blaðsins hafa sagt að Meghan sé það opinber persóna sem hluti af konungsfjölskyldunni að hún hafi mátt vænta þess að einkalífið yrði lítið sem ekki neitt. 

Eftir að Harry og Meghan sendu frá sér yfirlýsinguna um brotthvarf sitt má eiginlega segja að gríman hafi fallið hjá bresku konungsfjölskyldunni.  Hún er þekkt fyrir að halda spilunum þétt að sér en skyndilega tóku að leka allskonar fréttir úr Buckingham; að konungsfjölskyldan væri sár, yfirlýsingin hefði komið henni í opna skjöldu og að samband Harry við bróður sinn, Vilhjálm prins, væri við frostmark.  Boðað var til hálfgerðs neyðarfundar að beiðni drottningar til að greiða úr flækjunni og i gær leit niðurstaðan af þeim fundi ljós. 

Eru Elísabet enn ofarlega í huga

Harry og Meghan verða ekki lengur hans og hennar hátign, þau verða ekki lengur fulltrúar drottningarinnar og fá ekki greitt þegar þau sinna embættisskyldum.  Þá ætla þau að endurgreiða allan kostnaðinn við umbæturnar sem ráðist var í á Frogmore-setri. 

Þótt breskum fjölmiðlum hafi fundist eins og Elísabet hafi þarna verið að beita valdi sínu þá sýndi drottningin á sér mýkri hlið í annarri yfirlýsingu. Því þar notaði hún eiginnöfn þeirra sem þykir afar óvenjulegt. „Ég er ánægð að við skulum hafa komist að niðurstöðu um hvernig lífi barnabarns míns og fjölskyldu hans verður háttað,“ sagði í yfirlýsingu drottningar.

Harry, Meghan og Archie yrðu alltaf hluti af fjölskyldunni og drottningin sagðist styðja þá vegferð sem þau væru á. Þá hrósaði hún Meghan sérstaklega fyrir það hversu fljót hún hefði verið að aðlagast bresku konungsfjölskyldunni. „Það er von fjölskyldunnar að þetta samkomulag verði til þess að þau geti átt hamingjusamt og friðsælt líf.“

Fjölskylda Meghan sýnir klærnar

Það var síðan auðvitað bara tímaspursmál hvenær Thomas Markle, faðir Meghan, myndi tjá sig. Í viðtali við Channel 5 lýsti hann hertogahjónunum sem týndum sálum. Þau væru að breyta bresku konungsfjölskyldunni, með alla sína sögu og hefðir, í Walmart með kórónu.  „Þetta er ein elsta stofnun í heimi,“ segir Thomas Markle.

Hálfsystir Meghan, Samantha, hefur heldur ekki legið á skoðunum sínum og hún sendi systur sinni tóninn í nýlegu viðtali. Meghan hefði notið lífsins þegar allt lék í lyndi en um leið og bjátaði á hefði allt breyst og hún forðast að bera ábyrgð á gjörðum sínum.  Samantha hefur jafnframt ekki útilokað að faðir hennar beri vitni gegn dóttur sinni þegar réttarhöldin í máli hennar við Daily Mail hefjast.