Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vantar úrræði fyrir fólk sem flýr ofbeldi á heimili

08.01.2020 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Engin úrræði eru á Akureyri fyrir fólk sem þarf að yfirgefa heimili sitt vegna ofbeldis. Konum sem þurfa að flýja að heiman er boðið að fara í kvennaathvarf til Reykjavíkur. 124 leituðu aðstoðar vegna ofbeldis hjá Aflinu á Akureyri í fyrra. Þau höfðu ekki leitað þangað áður.

Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnisstjóri hjá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi, segir að úrræði skorti fyrir þennan hóp. Í flestum tilfellum séu það konur ásamt börnum sínum. Sigurbjörg segist þó ekki viss um að kvennaathvarf gæti gengið á Akureyri. „En einhvers konar úrræði þyrftum við að hafa hvort sem það er íbúð sem við getum leitað í eða hvað. Einhver neyðarúrræði til þess að geta sinnt þessu.“ 

Núna er konum í þessari stöðu boðið að fara í kvennaathvarf í Reykjavík. Sigurbjörg segir að það sé ekki hlaupið að því og það sé flókið til dæmis fyrir konur með börn á skólaaldri. Það vilji gleymast að það sé ekki bara þolandi ofbeldis sem þurfi að yfirgefa heimilið heldur fylgi fleiri með.

Eina fasta starfsemin utan höfuðborgarsvæðisins           

Sigurbjörg segir að málaflokknum sé annars vel sinnt á Akureyri. Til Aflsins leitar fólk sem hefur verið beitt hvers kyns ofbeldi. Þjónusta samtakanna byggist á einstaklingsviðtölum og hópastarfi. Allir ráðgjafar þar hafa persónulega reynslu af ofbeldi og ráðgjöf fer fram á jafningagrunni. Þangað leitar fólk af öllu Norðurlandi og hafi oft samband í síma. Þjónustan er eina fasta starfsemin fyrir þolendur ofbeldis utan höfuðborgarsvæðisins en Stígamót veita þjónustu á Egilsstöðum og á Ísafirði.

Andleg ofbeldi algengasta ástæða

Sigurbjörg segir að þjónustan sé mjög vel nýtt. Í fyrra leituðu 178 manns til Aflsins, þar af 124 í fyrsta sinn. Þar af voru karlmenn 15%, sem er mjög svipuð tala og í fyrra. Algengasta ástæða komu sé andlegt ofbeldi, kynferðisofbeldi og nauðgun. Andlegt ofbeldi leynist víða „og það er mjög oft þannig að þegar þú ert beittur líkamlegu ofbeldi þá er búið að vera að beita þig andlegu ofbeldi og brjóta þig niður andlega“.

Flækjustigið geti verið meira í sveitum

Stór hópur fólks leitar sér ekki aðstoðar að sögn Sigurbjargar. Miklu fleiri séu beittir ofbeldi en stíga fram því það sé erfitt að opna á þessi mál. Þá sé áberandi að fáir úr dreifbýli leiti aðstoðar; „Það þrífst ofbeldi í sveitum eins og annars staðar en kannski svolítið erfitt að takast á við það þar“. Erfitt sé fyrir bændur að ætla að stíga frá heimili og lífsviðurværi, fara frá dýrum sínum og jafnvel ættaróðali fjölskyldunnar. Þar séu ýmsir þættir sem geti gert málin flóknari. 

Rætt var við Sigurbjörgu á Morgunvaktinni á Rás 1 og má hlusta á viðtalið í heild sinni hér.