Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vantar skýr svör um skordýranotkun

20.01.2016 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd: Junglebar
Forsvarsmenn fyrirtækjanna Vía og Jungle-bar hafa ítrekað óskað eftir því að fá að vita hvaða reglur gilda um framleiðslu, sölu og neyslu á skordýraafurðum á Íslandi og talið sig fylgja settum reglum þar til Jungle-bar, orkustykki úr krybbumjöli, voru fjarlægð úr hillum Hagkaupa, þetta segir Gylfi Ólafsson, einn af forsvarsmönnum Vía, sem ræktar hermannaflugur í Bolungarvík.

Búi Bjarmar Aðalsteinsson, einn af eigendum Jungle-bar tekur undir þetta. Orkustykkin Jungle-bar voru nýlega teknar úr sölu í Hagkaupum að ósk Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Matvælastofnunar vegna nýfæðisreglugerðar Evrópusambandsins sem tekin í gildi á Íslandi í október 2015 en Jungle-bar er framleitt úr mjöli úr krybbum. Með þessu er óvissuástandi skordýraræktunar og nýtingu skordýra viðhaldið segir Gylfi. Forsvarsmönnum Jungle-bar var ekki kunnugt um þesssar nýju reglugerðir.

Nýfæðisreglugerðir

Reglugerð Evrópusambandsins var innleidd á Íslandi 18 árum eftir að hún var samþykkt af Evrópusambandinu. Gylfi segist hafa fullan skiling á því að þessar reglur hafi ekki verið til staðar áður enda litlar forsendur fyrir þeim þar til fyrir skömmu. Örfáir á Íslandi rækta skordýr eða vinna úr skordýrum. Það sé nauðsynlegt að veita skýr svör varðandi þessa framleiðslu til að létta óvissuástandinu sem hefur varað.

Hefur ekki áhrif á Víur

Gylfi segist ekki viss um að nýja reglugerðin hafi áhrif á starfsemi Vía í Bolungarvík. Hermannaflugur Vía eru ætlaðar til fóðurs á eldisfisk. „Það virðist vera sem að lög og reglugerðir taki það blíðari höndum,“ segir Gylfi. Flugurnar eru nú í einangrun og óvíst hvenær einangrunni verður aflétt, þau bíða eftir grænu ljósi frá Matvælastofnun.

Jungle-bar í biðstöðu

Búi segir að nú sé biðstöða hjá fyrirtækinu á meðan málið er til skoðunar. Þeir hjá Jungle-bar séu nú búnir að senda öll skjöl varðandi gæði og uppruna orkustykkjanna sem eru nú til skoðunar hjá Heilbrigðiseftirlitinu og Matvælastofnun. Búi segir að svo virðist sem að Evrópulönd túlki reglugerðina á misjafna vegu og því sé ekki ljóst hvaða afstöðu yfirvöld taka hér á landi. Hann er þó jákvæður og segir ljóst að einhver þurfti að fara í gegnum regluverkið og vera þá fordæmisgefandi fyrir þá sem á eftir koma, þörfin fyrir breytingar í matvælaiðnaði séu ljósar, kerfið verði að laga sig að því. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður