Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vantar hvata til að reisa grænar byggingar

11.04.2019 - 16:25
Mynd: Bergljót Baldursdóttir / Bergljót Baldursdóttir
Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar, segir að engin stefnumótun sé til fyrir byggingariðnaðinn eða reglur um hvernig eigi að hvetja til þess að hér á landi verði reistar umhverfisvænar byggingar. Hér á vanti heildarsýn fyrir byggingariðnaðinn.

Ekki mikil sjálfbærni í byggingariðnaði

Skýrsla um umhverfisvæna byggingu í íslensku samhengi kom út í dag á degi grænni byggðar. Félagssamtökin Grænni byggð stóð fyrir málþingi í tilefni dagsins. 

Grænni byggð, vettvangur um vistvænaþróun, hét áður Vistbyggðaráð og var stofnað 2010. Nafninu var breytt nýlega þegar samtökin gengu í alþjóðleg samtök sem heita World Green Building Councils

Þórhildur Fjóla segir að fæstir landsmenn hugsi mikið um umhverfismál og byggingar.

„Eins og fjárfestar í byggingariðnaði, þeir hugsa lítið um sjálfbærnimál og umhverfismál, eins og staðan er svolítið svart á hvítu. Þannig að við þurfum að hugsa miklu meira um þessi málefni.“ 

Nokkrir frumkvöðlar starfi þó á þessu sviði hér á landi. Framkvæmdasýsla ríkisins noti svokallaða Breeam vottun á margar af sínum stærri byggingum og einnig hafi Svansmerkið verið notað á byggingar hér á landi.  

Þórhildur er stundum beðin um að nefna hver grænasta byggingin sé á Íslandi. „Þá lendi ég stundum aftur í tímann og tala um Sesselíuhús á Sólheimum. Það eru ekki svo rosalega margar byggingar sem eru metnaðarfullar í umhverfismálum.“

Þarf að sameina krafta

„Mannvirkjastofnun heyrði undir umhverfisráðuneytið fram að áramótum. Nú er hann fluttur í félagsmálaráðuneytið. En aðrar stofnanir eins og sveitarstjórnarmálin og skipulagsmálin heyra í dag undir þrjú mismunandi ráðuneyti, umhverfisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Það þarf að sameina þessa krafta í byggingariðnaði og gera einhverja skýra stefnu um sjálfbærni, það er engin stefna.“

Katharina Bramslev, framkvæmdastjóri norsku samtakanna um grænni byggð, Norwegian Green Building Council, talaði á ráðstefnunni í dag og kynnti vegvísi fyrir byggingariðnaðinn fram til 2050. Í honum kemur fram hvernig á að vinna að aukinni sjálfbærni. 
„Slíka stefnumótun myndum við vilja sjá á Íslandi. Þar eru tekin ákveðin skref, sett markmið og skoðaðir fjárhagslegir hvatar. Þetta snýst oft um peninga og kostnað, heyrir maður frá verktökum. En það þarf líka að vera einhver til að koma markaðnum af stað og hið opinbera getur svo sannarlega stuðlað að því.“

Vantar heildarsýn í byggingariðnaði 

Þórhildur segir að byggingariðnaðurinn hafi fengið að leika lausum hala. Hvað áttu við með því?
„Af því þetta er í svona mörgum ráðuneytum þá er engin fastheldni. Það er eins og kúrekastarfsemi fái að eiga sér stað. Það eru of margir sem ráða. Það þarf heildarsýn í þessum málaflokki. Eins og við erum að byggja í dag er ekki nógu sjálfbært, við þurfum að huga miklu meira að þessum málum og móta okkur betra samstarf og betri stefnu.“

Byggingaverktakar reyna oft að byggja sem ódýrast. Þurfa þeir að fá einhvern annan hvata til að reisa grænar byggingar?

„Það er roslalega oft bara litið á stofnkostnaðinn, ekki á rekstrarkostnað bygginga, vegna þess að það eru aðilar sem kannski reisa bygginguna og þeir vilja fá kostnaðinn alveg niður í lágmark. En svo tekur einhver annar við, einhver eigandi byggingarinnar og rekstraraðili og þá kemur allt í einu í ljós að gæðin hafi ekki verið nógu mikil. Það þarf að fara í viðhald.“

Fjárhagslegir hvatar gætu ýtt við markaðnum

Ef stofnkostnaður er ekki nógu hár bætist oft við rekstrarkostnaður. Þannig geti gæði hönnunar leyst mörg vandamál. „En til þess að fá stofnkostnaðinn lægri á móti betri hönnun þá þarf þessa fjárhagslegu hvata. Það gætu verið lægri lóðargjöld fyrir einhverjar umhverfiskröfur. Það gætu verið lægri fasteignagjöld fyrir einhverjar ákveðnar kröfur. Við sjáum erlendis að þar eru bankarnir farnir líka að koma inn í þetta og eru með betri og hagkvæmari lán fyrir þá sem byggja vistvænt.“

Í vegvísinum frá Noregi sést að þeir sem byggja vistvænt fá forgang í kerfinu, fá flýtimeðferð.  

Það hefur mikið verið rætt um ýmsa galla í byggingum hér á landi, svo ekki sé talað um alla mygluna, það virðist vera mjög mikið að hérna. Ertu að segja að með því að hafa grænar byggingar að jafnvel þetta muni minnka, gallar og svona?

„Ég ætla ekki að fara svo langt að segja að vistvottun og grænar byggingar séu lausar við öll slík vandamál. En það er samt líklegra þegar þú fjárfestir í gæðahönnun og eins og þessi vistvottunarkerfi sem eru í gangi þau eru líka með ákveðið verklag, ákveðna stjórn yfir verkefninu. Þannig að það dregur úr líkunum á því að það verði gallar.“

Hvað er brýnast?

„Við viljum sjá vegvísi um sjálfbærni í byggingariðnaði og við viljum sjá alvöru fjarhagslega hvata sem geta ýtt á markaðinn, verið hvati fyrir markaðinn. Í dag er markaðurinn ekki með nægilega hvata og þá gerist ekkert. En ef hið opinbera sýnir smá frumkvæði og hefur einhverja umbun fyrir markaðinn þá myndum við sjá betri hreyfingu í átt til betri vegar.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV