Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vannærð börn og ungmenni í Hvíta-Rússlandi

20.04.2017 - 18:03
Mynd: DNC / DNC
Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hafa fyrirskipað rannsókn á ástæðum þess að börnum og ungmennum hefur verið haldið vannærðum árum saman á heimilum fyrir munaðarlausa. Svipað mál kom upp í Rúmeníu á tíunda áratug síðusta aldar og þótti mikið hneyksli.

Upp komst um málið nánast fyrir tilviljun. Barnalæknir við eitt af munaðarleysingjahælunum í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, bauð blaðamönnum að fylgjast með knattspyrnuleik sem fram fór til að afla fjár fyrir mat handa börnunum. Í kjölfarið voru myndir af alvarlega vannærðum börnum birtar í hvítrússnesku veftímariti og vöktu mikinn óhug. Við nánari athugun kom í ljós að hátt í eitt hundrað börnum og ungmennum var haldið á nokkrum munaðarleysingjahælum í Minsk. Öll voru þau rúmliggjandi, enda svo veikburða að þau gátu ekki gengið. °

Saksóknari sem tekur þátt í rannsókn málsins segir að starfsfólk þessara heimila hafi vanrækt skjólstæðinga sína verulega. Þeim hafi verið haldið glorsoltnum árum saman. Sumir unglingarnir vógu ekki nema 15 kíló eða svo og tvítug kona reyndist vega aðeins 11,5 kíló, álíka og tveggja til þriggja ára heilbrigt barn.

Starfsfólk heimilanna hefur reynt að verja gjörðir sínar. Haft er eftir aðstoðarforstöðukonu eins heimilisins að börnin eigi við geðræn vandamál að stríða, eða séu lömuð eða fötluð. Sum hafi ekki getað haldið niðri venjulegum mat. Þau hafi þurft að nærast á sérfæði, sem í sumum tilvikum þurfti að gefa þeim með slöngu. Þessi ummæli hafa verið fordæmd með þeim orðum að öll börn og ungmenni við þessar aðstæður eigi rétt á mannsæmandi meðferð. Þau eigi ekki að meðhöndla eins og plöntur.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV