Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vangoldin laun, falsanir og nauðungarvinna

03.07.2019 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vanvirðandi meðferð, nauðungarvinna, falsaðir launaseðlar, ólöglegt húsnæði, vangreidd laun og óhóflegur frádráttur er meðal þeirra atriða sem starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu er stefnt fyrir. Efling hefur einnig stefnt fyrirtækinu Eldum rétt fyrir vangoldin laun fjögurra Rúmena sem bjuggu við óboðlegar aðstæður í iðnaðarhúsnæði á meðan þeir dvöldu hér í janúar.

Vilja miskabætur vegna vanvirðandi meðferðar

Stefnan er gegn Mönnum í vinnu, sem heitir nú MIV, Höllu Rut Bjarnadóttur og öðrum forsvarsmönnum fyrirtækisins, og fyrirtækinu Eldum rétt. Stefnan er löng og tiltekur brot á mönnunum fjórum á mörgum sviðum. Farið er fram á samtals rúmar sex og hálfa milljón í vangoldin laun og eina og hálfa milljón á mann í miskabætur vegna vanvirðandi meðferðar og þvingunar- eða nauðungarvinnu. Það er mat Eflingar að Menn í vinnu hafi notfært sér bágindi eða fákunnáttu sína og boðið þeim vinnu á fölskum forsendum. 

Fjögur nöfn á starfsmannaleigum síðan 2016

Í stefnunni er saga Manna í vinnu, eða MIV, rakin. 2016 stofnaði sonur Höllu Rutar Verkleiguna ásamt öðrum manni, en Halla Rut sá um stjórnun og rekstur. Í kjölfar lögreglurannsóknar á félaginu var það úrskurðað gjaldþrota í maí 2018. Fram kemur í stefnunni að Halla Rut hafi verið úrskurðuð gjaldþrota í september 2014 og hafi að mati lögmanns Eflingar skort almenn hæfisskilyrði til að gegna trúnaðarstörfum fyrir Verkleiguna og Menn í vinnu. Nú í lok janúar stofnuðu þau nýja starfsmannaleigu, Seiglu. Í maí var nafninu á Mönnum í vinnu breytt í MIV. 

Bjuggu í iðnaðarhúsnæði en skráðir í Krummahólum

Fram kemur að mönnunum hafi verið lofað 3.000 evrum í mánaðarlaun fyrir komuna til landsins frá Rúmeníu, en þeir unnu hér á landi í janúar og dvöldu á meðan í iðnaðarhúsnæði við Dalveg í Kópavogi, en hjá Vinnumálastofnun skráðu Menn í vinnu þá hins vegar í Krummahólum í Breiðholti. Þá segir að Menn í vinnu hafi falsað launaseðla mannanna, tímasett þá aftur í tímann og ekki greitt þeim rétt laun. Launaseðlar voru samviskusamlega gefnir út, en laun ekki greidd fyrr en málið komst í hámæli í fjölmiðlum á ný í febrúar, en Kveikur fjallaði fyrst um fyrirtækið í október.

Fékk greiddar 46.000 krónur

Einn fékk laun fyrir tímabilið 1. til 15. janúar fyrst greidd 25. febrúar, 46.583 krónur, 26 dögum eftir að lauk störfum og hafði verið vísað úr iðnaðarhúsnæðinu við Dalveg. Annar fékk fyrst 45.000 króna greiðslu 18. febrúar, en hafði fengið áður í bútum 5000 krónur, 6.500, 12.500, 15.000 og svo 2000 krónur. 

Þá segir Efling að launafrádráttur vegna ýmissa atriða, eins og húsaleigu, flugs, rútuferða og fleira, af launum mannanna sé ólöglegur, sem og ráðningasamningarnir. Einn þeirra greiddi 73.000 krónur í húsaleigu við Dalveg, samkvæmt stefnunni. 

Neitaði að verða við kröfum Eflingar

Fyrirtækið Eldum rétt leigði starfsmennina af Mönnum í vinnu í janúar og hefur þeim einnig verið stefnt, samkvæmt lögum um keðjuábyrgð og starfsmannaleigur. Efling hafði samband við fjögur fyrirtæki sem höfðu leigt frá Mönnum í vinnu og féllust þau á að greiða kröfurnar, að undanskildum Eldum rétt, sem vill fá úr málinu skorið fyrir dómstólum. Fyrirtækjum ber að greiða leigðu starfsfólki sömu laun og öðrum starfsmönnum fyrir sömu vinnu og er skorað á Eldum rétt að birta launaseðla Rúmenanna. Efling sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis þar sem segir að framkvæmdastjóri Eldum rétt, Kristófer Júlíus Leifsson, hafi brugðist við fréttum af málinu í dag með útúrsnúningi og rangfærslum. Kristófer vildi ekki veita fréttastofu viðtal.  

MIV þurfa að greiða tryggingu í meiðyrðamáli

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í morgun á kröfu lögmanna Unnar Sverrissdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, og Maríu Lóu Friðjónsdóttur, sérfræðings í vinnustaðaeftirliti ASÍ, um greiðslu málskostnaðartryggingar starfsmannaleigunni Manna í vinnu í meiðyrðamáli sem leigan höfðaði gegn þeim. Mönnum í vinnu er gert að greiða samtals tvær komma sex milljónir í tryggingu og hafa til þess tvær vikum, ellegar verður málunum vísað frá.

Forsvarsmenn Manna í vinnu stefndu nokkrum starfsmönnum fjölmiðla og stéttarfélaga fyrir meiðyrði vegna ummæla og frétta í kjölfar umfjöllunar Kveiks og síðar annarra fjölmiðla um starfsemi fyrirtækisins. Dómari félls á kröfur lögmanna Maríu Lóu og Unnar á þeim forsendum að Menn í vinnu gætu mögulega ekki greitt málskostnað í ljósi fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Menn í vinnu fóru fram á í stefnu sinni að þær Unnur og María Lóa greiði fyrirtækinu samtals fjórar milljónir í miskabætur vegna ummæla þeirra í fjölmiðlum.  

 

Athugasemd 8. júlí 2019
Þessari frétt hefur verið breytt.  Í fréttinni var fullyrt að tengdadóttir Höllu Rutar Bjarnadóttur hefði átt hlut að stofnun Manna í vinnu og síðar Starfsmannaleigunnar Seiglu. Það er ekki rétt og er viðkomandi beðin velvirðingar á missögninni.