Valskonur geta unnið fyrsta titilinn í níu ár

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valskonur geta unnið fyrsta titilinn í níu ár

21.09.2019 - 08:50
Valur er í dauðafæri að verða Íslandsmeistari kvenna í fótbolta í ellefta sinn er lokaumferð Pepsi Max-deildar kvenna fer fram í dag. Liðið hefur ekki unnið titilinn síðan 2010.

Valskonur eru með örlög sín í eigin höndum fyrir leiki dagsins þar sem liðið er með tveggja stiga forystu á Breiðablik á toppi deildarinnar. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í innbyrðis leik sínum á Kópavogsvelli síðasta sunnudag þar sem jöfnunarmark Heiðdísar Lillýardóttur fyrir Breiðablik í uppbótartíma kom í veg fyrir að Valur tryggði sér titilinn þar og þá.

Valur vann fimm titla í röð árin 2006 til 2010 og er næst sigursælasta lið deildarinnar frá upphafi með tíu titla, sjö á eftir Breiðabliki sem hefur unnið 17. Liðið hefur ekki unnið deildina frá 2010 en síðasti titill liðsins var þegar Valur vann bikarinn ári síðar, sumarið 2011.

Valskonur geta því bætt ellefta titli sínum í hús í dag er liðið mætir föllnu liði Keflavíkur klukkan 14:00. Nánast öruggt er að allt nema tap dugi liðinu til titilsins vegna góðrar markatölu. Geri Valur jafntefli þyrfti Breiðablik að vinna sinn leik gegn Fylki í Árbæ með 17 marka mun. Tapi Valur leik sínum dugir Breiðabliki hins vegar sigur til titilsins.

Þá getur Valur sem félag skráð sig í sögubækurnar vinnist titillinn í dag. Valur verður þá ríkjandi Íslandsmeistari í fótbolta, handbolta og körfubolta í kvennaflokki. Aldrei hefur félag afrekað að vera Íslandsmeistari í þremur „stóru“ boltaíþróttunum samtímis, hvorki í karla- né kvennaflokki.

Leikir dagsins:
14:00 Valur - Keflavík (Origo-völlurinn)
14:00 Fylkir - Breiðablik (Würth-völlurinn)
14:00 Stjarnan - KR (Samsung-völlurinn)
14:00 Selfoss - ÍBV (JÁVERK-völlurinn)