Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Valdaskeiði Netanyahu líklega lokið

24.10.2019 - 10:09
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Það verður líklega tilkynnt í dag að tveimur af þremur gerðum veiru sem veldur lömunarveiki eða mænusótt hafi verið útrýmt. Þriðja gerð veirunnar finnst aðeins í Afganistan og Pakistan þar sem bólusetningar ganga illa vegna stríðsátaka. Þetta kom fram í Heimsglugga Boga Ágústssonar á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Bogi fjallaði einnig um stjórnmál í Ísrael, en Benny Gantz, leiðtoga Blá-hvíta bandalagsins, hefur verið falin stjórnarmyndun í Ísrael eftir að Benjamín Netanyahu , forsætisráðherra, tókst ekki að afla sér fylgis til stjórnarmyndunar. Flokkur hans, Likud bandalagið, og Blá-hvíta bandalagið fengu báðir um þriðjung atkvæða í kosningum í september. Þar með virðist valdaskeiði Netanyahu vera lokið, en hann hefur verið forsætisráðherra í Ísrael síðan 2009, auk þess sem hann gegndi embættinu frá 1996 til 1999.

Bogi ræddi einnig um óróa og mannskæðar óeirðir sem hafa verið í nokkrum ríkjum Suður-Ameríku að undanförnu, Chile, Ekvador og Bólivíu.

Bandaríkjamenn hafa enn mikinn áhuga á Grænlandi þó að kauptilboði Donalds Trumps forseta í landið hafi verið hafnað. Þungavigtarsendinefnd frá Washington hefur verið í Nuuk og rætt við heimamenn. Formaður nefndarinnar, Thomas Ulrich Brechbuhl, hefur sagt að Bandaríkjamenn hafi ýmislegt að bjóða Grænlendingum.

Það er hægt að hlusta á Heimsgluggann í spilaranum hér að ofan.

 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV